Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Hreppurinn blankur svo íbúar tóku sig til

18.05.2015 - 17:18
Mynd með færslu
 Mynd: Sif Hauksdóttir - Breiðdalshreppur
„Það þarf ekki annað eina rödd til að boltinn fari að rúlla. Þannig að við horfum til sumarsins með gleði,“ segir Sif Hauksdóttir, verkefnastjóri hjá Breiðdalshreppi.

Íbúum á Breiðdalsvík tókst á skömmum tíma að safna fyrir endurbótum á sundlaug staðarins sem hafði staðið ónotuð í um tvö ár. Börnum á staðnum hefur verið ekið til Stöðvarfjarðar í sundkennslu bæði að vori og hausti en nú geta þau fengið sundkennslu í heimabyggð.

Engir peningar til - eða hvað?

Þegar ljóst varð að fara þyrfti í dýrar endurbætur á lauginni og skipta um dúk á henni ákvað þáverandi sveitastjórn að loka sundlauginni tímabundið. Hún hafði verið opin á sumrin og einnig notuð til sundkennslu. Kvennfélagið Hlíf hóf söfnun fyrir endurbótunum og náði að safna einni og hálfri milljón. Mikill skriður komast á söfnunina þegar Lionsklúbburinn Svanur og íþróttafélagið Hrafnkell Freysgoði lögðust á sveif með kvennfélagskonum og tókst að safna fyrir endurbótum sem lauk um helgina.

Sif segir að heildarkostnaður hafi verið vel á fjórðu milljón en félögunum hafi tekist að fjármagna það með framlögum frá einstaklingum og fyrirtækum í sveitarfélaginu. Fólk hafi alltaf verið að vona að fé til lagfæringa fyndist hjá sveitarfélaginu en svo hafi komið í ljós að einungis þurfti samtakamátt íbúanna. 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV