Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hreppur hirðir sorphirðugjald af bæjarfulltrúa

04.09.2017 - 22:20
Mynd með færslu
Myndin er úr safni Mynd: RÚV/Snæfríður  - RÚV
Úrskurðarnefnd umhverfis-og auðlindamála hafnaði kröfu eiganda sumarhúss í Húnavatnshreppi sem vildi að ákvörðun sveitarfélagsins um að leggja sorphirðugjald á húsið yrði ógild. Eigandinn, Oddný María Gunnarsdóttir, er bæjarfulltrúi í nágrannasveitarfélaginu Blönduósi og hún hélt því fram að húsið væri eyðibýli. Hreppurinn taldi þau rök vart halda vatni - húsið væri notað sem sumarhús þar sem ljósleiðari hefði verið lagður í það á síðasta ári.

Húnavatnshreppur samþykkti á fundi sínum í maí að leggja sorphirðugjald á fasteignina en það er rúmar tíu þúsund krónur á ári. Oddný María mótmælti þessu  og fór fram á að það yrði fellt niður en á það vildi Húnavatnshreppur ekki hlusta.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar segir Oddný að engin búseta hafi verið á jörðinni frá árinu 1984 og að sorphirðugjugjald hafi ekki verið innheimt fyrr en nú. Við hreinsun á landinu hefði hún annað hvort leigt gáma eða keyrt á Blöndós með sorpið þar sem gámar Húnavatnshrepps væri úr leið fyrir sig og hún gæti því ekki notfært sér þær.

Þá væri fasteignin eyðibýli og óíbúðarhæf enda ekkert rennandi vatn né upphitun. Húsið væri skemmt og fengist ekki samþykkt sem vistavera við úttekt. Búskapur sem stundaður væri á jörðinni væri með öllu sjálfbær og því félli ekki til sorp af þeim sökum.

Húnavatnshreppur byggði ákvörðun sína á því að gjaldtakan væri lögmæt og óháð notkun þeirra fasteigna sem væru á jörðinni.

Í úrskurðinum kemur jafnframt fram að sveitarfélagið hafi gert athugasemdir við þær fullyrðingar Oddnýjar um að fasteignin sé eyðibýli og að þar sé engin búseta.

Jörðin hafi þvert á móti verið notuð sem skógræktarjörð og þau hús sem standi á jörðinni hafi ekki verið metin óíbúðarhæf heldur hafi rafmagn verið tengt í einhver húsanna fyrir fáeinum árum síðan.  Þá sé óumdeilt að nýlega hafi verið óskað eftir ljósleiðaratengingu og að lagt hafi verið fyrir ljósleiðara. „Af framangreindu dragi sveitarfélagið þá ályktun að fullyrðingar um að jörðin sé lítið sem ekkert nýtt séu rangar.“

Úrskurðarnefndin kemst að þeirri niðurstöðu að álagning sveitarfélagsins hafi verið lögmæt og bendir jafnframt á að meðhöndlun sorps sé grunnþjónusta í sveitarfélagi, hún þurfi að vera í föstum skorðum og sé þess eðlis að hún megi ekki falla niður þótt einhverjir íbúa nýti sér hana ekki.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV