Hrepptu silfur á heimsmeistaramóti

26.08.2018 - 19:56
Mynd með færslu
 Mynd: Team Iceland
Íslensk ungmenni hrepptu silfur í heimsmeistarkeppni í vélmennaforritun þar sem 192 lið tóku þátt. Þau söfnuðu styrkjum og skipulögðu ferðina upp á eigin spýtur. Liðið segir frekar einfalt að búa til vélmenni, þetta séu bara skrúfur, vírar og pinnar. 

Alls tóku 192 lið þátt í keppninni. Keppendur mega ekki vera eldri en átján ára. Þau voru valin af þjálfara liðsins, Eyþóri  Mána Steinarssyni, sem er nítján ára. Kormákur Atli Unnarsson og Flosi Torfason tóku þátt í keppninni í fyrra og Dýrleif Birna Sveinsdóttir bættist í hópinn í ár. „Eyþór kom bara inn í skólastofu til mín og spurði hvort ég vildi koma með til Mexíkó,“ segir hún og hlær.

Skipulögðu sjálf og fjármögnuðu með styrkjum

Þau segjast alls ekki hafa búist við því að hreppa silfrið. „Við vildum bara að þetta myndi ganga betur en á síðasta ári og þá náðum við 107. sæti, “ segir Dýrleif.  Aðspurð hvers vegna hefði gengið miklu betur í ár segja þau margt spila inn í. Reynsla Kormáks og Flosa af keppninni hafi verið dýrmæt. Þá hafi þau öll náð vel saman og unnið afskaplega vel saman sem hópur. 

Alls mega sjö vera í liði en þau voru einungis þrjú. Þau tóku þátt í keppninni algjörlega á eigin vegum. „Við þurftum bara að byrja á því strax í mars um leið og við fengum umboðið til þess að mynda liðið að sjá um að afla styrkja og koma okkur út, alveg sjálf,“ segir Eyþór. Dýrleif segir ferlið hafa verið örlítið strembið. „Við vorum ekki með neina aðstöðu þannig við gerðum þetta bara í aukaherbergi í íbúðinni þeirra,“ segir hún og vísar í íbúð Kormáks og Flosa. 

En hvernig býr maður til vélmenni?

„Það er frekar einfalt nefnilega. Markmiðið með keppninni og hugmyndin í kringum þetta er að sýna fólki að þetta er auðvelt og hver sem er getur gert þetta. Það þarf bara smá frumkvæði og prófa sig áfram. Þetta eru bara skrúfur, vírar og pinnar!“ Segir Eyþór. 

Mynd með færslu
 Mynd: Team Iceland

Þetta reddast.....

Ferlið gekk þó ekki alveg snurðulaust fyrir sig. „Vélmennið heitir Þetta reddast. Okkur finnst það lýsa svolítið ferlinu okkar,“ segir Dýrleif. Eyþór tekur í sama streng. Lengi var óvíst hvort þau næðu að safna nógu mörgum styrkjum og svo bilaði vélmennið á síðustu stundu. En, þetta reddaðist.

„Við bara redduðum hlutunum. Þegar eitthvað bilaði þá löguðum við það, þegar eitthvað virkaði ekki þá létum við það virka, á einhvern hátt. Þetta reddaðist. Og bara frekar vel,“ segir Eyþór og brosir.

Því miður gat Þetta reddast ekki veitt viðtal eða sýnt kúnstir sínar. „Það er svolítið skemmtileg saga. Vélmennið er núna líklega í Bandaríkjunum. Það týndist sem sagt á leiðinni til Íslands. Við vonumst bara til þess að fá það núna á morgun til þess að geta sýnt það og gert eitthvað skemmtilegt,“ segir Eyþór. „Við erum bara að vona að þetta gangi allt upp og við fáum elskuna okkar aftur!“ Bætir Dýrleif við að lokum.

Mynd með færslu
 Mynd: Team Iceland
olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi