Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hrefna synti upp í fjöru í höfn á Þórshöfn

27.10.2015 - 17:34
Mynd með færslu
 Mynd: Anna Hjördís Skagfjörð
Mynd með færslu
 Mynd: Anna Hjördís Skagfjörð
Mynd með færslu
 Mynd: Anna Hjördís Skagfjörð
Mynd með færslu
 Mynd: Anna Hjördís Skagfjörð
Hrefnukálfur synti inn í höfnina á Þórshöfn í morgun og svamlaði þar um í nokkurn tíma áður en hann synti upp í fjöru og festist þar. Björgunarsveitarmenn hafa hugað að dýrinu og ausa yfir það vatni uns flæðir að á ný. Fólk hefur drifið að höfninni til að fylgjast með atburðum.

Hrefnan kom inn í höfnina um klukkan níu í morgun. „Hún kom hérna inn í höfnina og synti hér um og synti svo í strand,“ segir Jón Rúnar Jónsson hafnarvörður. Hann segir að nú sé beðið eftir að það flæði að svo hægt sé að koma hrefnukálfinum aftur á haf út. Flóð verður um klukkan tíu í kvöld.

Jón Rúnar segir það ekki hafa gerst áður að hrefna hafi synt inn í höfnina, svo langt aftur sem hann muni. Fyrir nokkrum árum syntu háhyrningar upp í fjöru við Heiðarhöfn. Þá var reynt að bjarga þeim en þau dýranna sem náði að koma út úr fjörunni sneru fljótlega aftur upp í hana.

Anna Hjördís Skagfjörð er ein þeirra sem fylgst hafa með aðförunum. Hún segir að ekki sé hægt að koma báti að hrefnunni núna til að draga hana á haf út þar sem nú sé fjara. Að auki er ís í höfninni enda búið að vera kalt á Þórshöfn undanfarið.

Sárin ekki alvarleg

Myndir voru teknar af hrefnunni í fjörunni og sendar sérfræðingum hjá Matvælastofnun. Þeirra mat var að sár á dýrinu væru ekki það alvarleg að þau ættu að há dýrinu að ráði. Því miða aðgerðir að því að halda því á lífi þar til á flóði svo hægt verði að koma hrefnukálfinum aftur á flot.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV