Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hrakfallasaga United Silicon í Helguvík

26.04.2017 - 15:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Umhverfisstofnun hefur stöðvað starfsemi verksmiðjunnar og er United Silicon óheimilt að gangsetja ofn verksmiðjunnar á ný til framleiðslu nema með leyfi stofnunarinnar. Verksmiðjan hefur þó heimild til að endurræsa svokallaðan ljósbogaofn verksmiðju fyrirtækisins, til að greina orsök lyktarmengunar og vinna við mögulegar úrbætur.

25.04.2017 - Óskar samstarfs við Umhverfisstofnun

Stjórnendur United Silicon í Helguvík gera ekki athugasemdir við ákvörðun Umhverfisstofnunar um að heimila ekki gangsetningu verksmiðjunnar nema í samráði við stofnunina. Þeir óska eftir samstarfi við Umhverfisstofnun um endurræsingu verksmiðjunnar og rannsóknir í framhaldi af því, sem United Silicon muni greiða fyrir.

23.04.2017 - Ekki rétt staðið að undirbúningi

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokks og fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis, segir að ekki hafi verið rétt staðið að undirbúningi verksmiðju United Silicon í Helguvík. Hann segir einboðið að verksmiðjan fari ekki aftur í gang, fyrr en mál hennar verði komin í lag.

21.04.2017 - United Silicon fær frest

United Silicon hefur fengið frest til miðnættis á mánudag til að skila athugasemdum við áform Umhverfisstofnunar um að stöðva starfsemi verksmiðjunnar í Helguvík. Talsmaður fyrirtækisins segir að verksmiðjan verði ekki gangsett á ný fyrr en lausn sé fundin á lyktarmengun.

19.04.2017 - Umhverfisstofnun vildi loka United Silicon

Umhverfisstofnun tilkynnti forsvarsmönnum United Silicon með bréfi þann 12. apríl að ekki yrði hjá því komist að loka þyrfti verksmiðjunni þar sem frá henni streymdi fjöldi efna sem gætu haft langtímaáhrif á heilsufar.

18.04.2017 - Eldur á þremur hæðum í United Silicon

Eldur kom upp í kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík. Eldur logaði í trégólfum á þremur hæðum ofnahússins. Engan sakaði.

28.03.2017 - Biðst afsökunar á stuðningi við United Silicon

Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi bað þjóðina afsökunar á stuðningi sínum við United Silicon á Alþingi. Fyrirtækið hafi fengið gríðarlegan stuðning skattborgaranna og eftirgjöf gjalda en á sama tíma greitt starfsfólkinu allt of lág laun. Slíkt fyrirtæki eigi ekki bjarta framtíð. 

23.02.2017 - Hóta að loka kísilveri United Silicon

Umhverfisstofnun ætlar að stöðva rekstur United Silicon, verði ekki ráðist í tafarlausar úrbætur í mengunarmálum. Íbúar á Suðurnesjum hafa kvartað undan líkamlegum einkennum vegna mengunar frá verksmiðjunni. Umhverfisstofnun hefur aldrei áður ráðist í eins umfangsmikið eftirlit og í tilfelli verksmiðjunnar.

04.01.2017 - Með United Silicon í „hálfgerðri gjörgæslu“

Á vef Stundarinnar í gærkvöld var fullyrt að verksmiðjan hefði að undanförnu losað hættuleg eiturefni í skjóli nætur út úr reykhreinsivirki verksmiðjunnar og út í andrúmsloftið. Myndskeið, sem fylgdi fréttinni, sýndi starfsmann verksmiðjunnar losa efnin út en sagt var að það hefði verið tekið um miðjan þennan mánuð.

12.12.2016 - Íbúafundur vegna mengunar í Reykjanesbæ

Boðað var til opins íbúafundir í Stapa í Reykjanesbæ á miðvikudagskvöld vegna mengunar frá kísilveri United Silicon í Helguvík.

28.11.2016 - Líkja bruna í ofni kísiliðju við arineld

Bruninn í ljósbogaofni United Silicon í kísiliðjunni í Helguvík er sambærilegur við það þegar fólk brennir eldivið í arninum eða kamínunni heima hjá sér og lyktin er því sú sama. Hitinn í ofninum verður svo hækkaður smám saman á næstu dögum þannig að bruninn verði hreinni og brunalyktin minnki og hverfi jafnvel.

26.11.2016 - United Silicon viðurkennir mistök

Stjórnendur United Silicon í Helguvík viðurkenna mistök og segjast ekki hafa miðlað nægilegum upplýsingum til íbúa Reykjanesbæjar. Kona, sem segist hafa orðið fyrir bruna í öndunarfærum vegna mengunar frá verksmiðjunni, vill láta loka henni. Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ segir að byrjunarörðugleikum verksmiðjunnar verði að fara að linna. Hann hafi fengið ógrynni kvartana frá íbúum.

25.11.2016 - Hafa áhyggjur af mengun frá kísilveri

Á fjórða tug kvartana hafa borist Umhverfisstofnun vegna mengunar frá kísilveri United Silicon í Reykjanesbæ, frá því verksmiðjan var tekin í notkun fyrir tæpum tveimur vikum. Bæjarráð Reykjanesbæjar ályktaði um málið og lýsti yfir áhyggjum af menguninni.

24.11.2016 - Brunalykt gæti haft áhrif á starfsleyfi

Mikla brunalykt hefur lagt yfir Reykjanesbæ frá því að ljósbogaofn í kísiliðju United Silicon í Helguvík var ræstur fyrir tíu dögum. Starfsmenn hafa átt í vandræðum með stýringar á hreinsibúnaði, sem á að hreinsa reykinn sem kemur úr ofninum, og skila því sem næst hreinu lofti út. 

17.11.2016 - Reykmengun barst úr Kísilveri

Íbúar í Reykjanesbæ kvörtuðu undan því að mengun bærist frá kísilveri United Silicon í Helguvík og segja að súra brunalykt hafi lagt yfir bæinn. Fyrir mistök fór reykur frá bræðsluofni út um dyr verksmiðjunnar, í stað þess að fara í gegnum hreinsunarvirki.

13.11.2016 - Fyrsta kísilmálmverksmiðja gagnsett

Fyrsta kísilmálmverskmiðjan á Íslandi var gangsett þegar Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, setti ljósbogaofn verksmiðjunnar af stað. Kísillinn er framleiddur í þeim ofnum.

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV