Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hrafnhildur valin á Feneyjatvíæringinn

Mynd með færslu
 Mynd: KÍM

Hrafnhildur valin á Feneyjatvíæringinn

04.06.2018 - 18:05

Höfundar

Hrafnhildur Arnardóttir, sem einnig gengur undir listamannsnafninu Shoplifter, hefur verið valin sem fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2019. Sýninguna vinnur Hrafnhildur í samstarfi við sýningarstjórann, Birtu Guðjónsdóttur.

Í tilkynningu frá Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar segir að tillaga Hrafnhildar Arnardóttur, einnig þekkt sem Shoplifter, og Birtu Guðjónsdóttur, listamann og sýningarstjóra verkefnisins, hafi verið valin eftir langt umsóknarferli. Þar segir að tillaga Hrafnhildar og Birtu uppfylli alla þá þætti til að tryggja velgengni og árangur Íslands á Feneyjatvíæringnum. Haft var að leiðarljósi að verk­efnið sem yrði fyr­ir val­inu ætti er­indi í alþjóðlegu sam­hengi, gæti vakið at­hygli og að listamaður­inn og teymið sem hann vinni með hafi reynslu í þátt­töku alþjóðlegra og viðamik­illa verk­efna.

Listamaður sem fæst við þráhyggju mannsins

Hrafnhildur Arnardóttir er búsett í New York. Í tilkynningu segir að hún hafi á undanförnum 15 árum kannað notkun og táknrænt eðli hárs, auk sjónrænna og listrænna möguleika þessarar líkamlegu afurðar, á umfangsmikinn hátt. Í verkum sínum fæst hún við sögu þráhyggju mannsins gagnvart hári og hvernig má upplifa hár sem birtingarmynd sköpunar í nútíma menningu, sem tekst á við hugmyndir á mörkum þráhyggju eða blætis. List hennar hverfist að mestu um skúlptúra, staðbundnar innsetningar og veggverk, sem fjalla jafnan um hégóma, sjálfsmynd, tísku, fegurð og goðsagnir í almannavitundinni. Hrafnhildur sækir áhrif frá dægurmenningu og fjöldaframleiðslu, auk alþýðulistar, naívisma og handverks, sem hefur mikil áhrif á sköpun hennar.

Mynd: RÚV / RÚV
Fjallað var um Hrafnhildi Arnardóttur í myndlistarþættinum Opnun árið 2018.

Hrafnhildur hefur unnið með íslensku tónlistarkonunni Björk. Fyrir umslag plötu hennar Medúlla árið 2004 skapaði Hrafnhildur „hár-hjálm“. Árið 2008 starfaði Hrafnhildur með listahópnum a.v.a.f að verki fyrir framhlið MoMA; Samtímalistasafnsins í New York. Meðal nýjustu verka hennar er röð viðamikilla innsetninga, sem ber heitið Nervescape og hún hefur unnið sérstaklega fyrir stórar stofnanir, til að mynda Nervescape IV á Norræna tvíæringnum í samtímamyndlist – Momentum 8, í Moss í Noregi árið 2015, Nervescape V í Samtímalistasafni Queensland í Brisbane í Ástralíu árið 2016 og Nervescape VI í Fílharmóníunni í Los Angeles í Bandaríkjunum 2017 og í Nervescape VII í Listasafni Íslands 2017.  

Birta Guðjónsdóttir, sýningarstjóri og myndlistarmaður, hefur starfað sem deildarstjóri sýningadeildar í Listasafni Íslands í Reykjavík frá árinu 2014. Árið 2015 var hún einn af fjórum sýningarstjórum Momentum 8 – Norræna myndlistartvíæringnum í samtímalist, í Noregi. Árið 2009-11 starfaði hún sem safnstjóri Nýlistasafnsins í Reykjavík. Árið 2008-09 var hún listrænn stjórnandi sýningarrýmisins 101 Projects í Reykjavík. Árið 2008 starfaði hún sem aðstoðar-sýningarstjóri í MuHKA; Samtímalistasafninu í Antwerpen, Belgíu. 2006-2007 tók hún þátt í verkefninu Nordic Baltic Baltic Curatorial Platform, hjá FRAME, Finnlandi. 2005-08 starfaði hún sem sýningarstjóri í SAFNi, einkasafni Péturs Arasonar og Rögnu Róbertsdóttur í Reykjavík.

Birta hefur stýrt yfir 25 myndlistarsýningum sem sjálfstætt starfandi sýningastjóri, í Basel, Berlín, Boden, Kaupmannahöfn, Ósló, Melbourne, New York, St. Pétursborg og í flestum listasöfnum og sýningarýmum á Íslandi. Árið 2011 tók hún þátt í Curatorial Intensive Program hjá ICI; International Curators Independent í New York. Árið 2011 tók hún þátt í The Cornwall Workshop, hjá Tate Museum St. Ives. Birta hefur sinnt nefndarstörfum hjá Listfræðafélagi Íslands, Listaháskóla Íslands og Safnaráði. Á árabilinu 2002-2013 hélt hún úti heima-sýningarýminu Gallerí Dvergur í Reykjavík. Birta er meðlimur í IKT, International Association of Curators of Contemporary Art.

KÍM bárust 17 tillögur

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar bárust 17 tillögur frá listamönnum og sýningarstjórum. Fagráð á vegum Kynningarmiðstöðvarinnar fór yfir tillögurnar og valdi þrjá umsækjendur sem unnið hafa að nánari útfærslu verkefnanna fyrir lokavalið. Þeir listamenn sem voru tilnefndir voru Elín Hansdóttir ásamt sýningarstjóranum Carson Chan, Hekla Dögg Jónsdóttir ásamt sýningarstjóranum Alessandro Castiglione og Hrafnhildur Arnardóttir ásamt sýningarstjóranum Birtu Guðjónsdóttur.

Í dómnefnd við lokavalið sátu Björg Stefánsdóttir, framkvæmdarstjóri KÍM, Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri og Helga Óskarsdóttir, myndlistarmaður, gestir fagráðsins voru Æsa Sigurjónsdóttir, listfræðingur, sýningarstjóri og dósent í listfræði við Háskóla Íslands og Pari Stave, sýningarstjóri við Metropolitan listasafnið í New York, en hún hefur komið að uppsetningu allnokkurra sýninga með íslenskum listamönnum, hér á landi og vestanhafs.

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar hefur umsjón með íslenska skálanum á Feneyjartvíæringnum. Val á fulltrúa Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2017 var í höndum fagráðs sem samanstóð af Björgu Stefánsdóttur framkvæmdastjóra KÍM, Hlyni Hallssyni safnstjóra Listasafnsins á Akureyri og Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur listamanni. Gestir fagráðsins að þessu sinni voru Aðalheiður Guðmundsdóttir, listheimspekingur og fagstjóri fræðigreina við myndlistardeild Listaháskóla Íslands auk Libiu Castro listamanns.

Tengdar fréttir

Myndlist

Ráðist inn í Ásmundarsafn með gleði að vopni

Myndlist

Litir eru sálrænt meðal

Myndlist

Á sitt hvorum vængnum