Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hræið verður dregið út á haf á morgun

31.08.2019 - 17:39
Mynd með færslu
 Mynd: Hilma Steinarsdóttir
Háhyrningurinn, sem drapst í fjörunni rétt utan við hafnargarðinn á Þórshöfn í morgun, verður dregin út á haf á morgun þar sem hann mun sökkva. Gerð verða göt á hræið og það opnað til að koma í veg fyrir að hræið fljóti aftur upp.

Jón Rúnar Jónsson, starfsmaður þjónustumiðstöðvar Langanesbyggðar, segir í samtali við fréttastofu að verið sé að koma böndum á hræið og að það verði síðan dregið út á flóði á hádegi á morgun.  Það verði dregið töluvert langt út á haf.

Hann segir það leiðinlega nálægt byggðinni og því hafi verið ákveðið að grípa til þessa ráðs. Stór trilla mun draga hræið með aðstoð björgunarsveitarinnar.  Jón Rúnar segir að mikið af hval hafi verið í firðinum í sumar, ekki sé langt síðan að hrefna var í höfninni og greinilega mikið líf þar.

Björgunarsveitarmenn reyndu að bjarga háhyrninginum í gærkvöld. Þeim tókst að koma honum út í sjó og út fyrir höfnina. Hann bar síðan aftur að landi og drapst í fjörunni í morgun. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV