Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

„Hraðasti vöxtur sem við höfum séð“

01.10.2015 - 10:05
Mynd með færslu
 Mynd: Jórunn Harðardóttir - Veðurstofa Íslands
Rennsli í Skaftá eykst hratt og er nú tæplega 900 rúmmetrar á sekúndu við Sveinstind. Íshellan yfir Eystri-Skaftárkatli hefur sigið um 55 metra frá því hlaupið hófst.

Snorri Zóphaníasson, jarðfræðingur á vatnamælingasviði Veðurstofunnar, segir að flóðið vaxi mjög hratt. „Við lesum hérna á mælinn við Sveinstind og það er hraðasti vöxtur sem við höfum séð. Ég held að ég geti fullyrt það. Miðað við hversu langur söfnunartíminn hefur verið þá lýst mér á að þetta geti verið mjög stórt.“ 

Íshellan hefur sigið um 55 metra og Snorri segir að það sé mjög hratt. Söfnunartíminn í katlinum hafi verið mikill og því ýmislegt sem bendi til þess að flóðið verði stórt. Efsti mælir Veðurstofunnar er við Sveinstind en næsti efst í Skaftárdal. Hlaupið náði þangað rétt fyrir klukkan tíu í morgun. Snorri segir að tjón geti verði einna helst á vegum og landi. „Ég hugsa að það yrði helst á vegum og svo á landinu sjálfu. Þetta brýtur upp land og ber mikinn aur út á hraun og nær langt fram.“

Snorri segir að leiðni við Sveinstind hafi hækkað mikið en hún sé ekki áberandi mikil. Þetta komi síðan betur í ljós þegar neðar dregur. „Núna er þetta bara í Skaftá niður í Skaftárdal en þar skiptist hún. Fer annars vegar niður Eldvatn hjá Ásum og út í Kúðafljót en 20% af þessu fer í austurátt og mikið af því út í hraunið fyrir neðan Skálarheiði og svo hluti austur að Kirkjubæjarklaustri en það er tiltölulega lítið yfirleitt,“ segir Snorri.