Hrá, kraftmikil og ógnvekjandi

Mynd: RÚV / RÚV

Hrá, kraftmikil og ógnvekjandi

26.03.2020 - 08:23

Höfundar

Gagnrýnendur Kiljunnar eru sammála því að frumraun Brynju Hjálmsdóttur, Okfruman, sé myndræn, hrollvekjandi og afar vel heppnuð ljóðabók.

Það má segja að Reykjavíkurskáldið Brynja Hjálmsdóttir hafi stimplað sig rækilega inn með sinni fyrstu bók sem hlaut verðlaun Bóksala sem ljóðabók ársins 2019 og var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna. Í Okfrumunni, sem er í senn barnsleg og myrk, fylgir lesandi ljóðmælandanum frá getnaði í gegnum fyrstu ævistig með ýmsum áföllum og brjálæði. Sverrir Norland og Kolbrún Bergþórsdóttir rýndu í bókina með Bergsteini Sigurðssyni í Kiljunni og voru bæði afar hrifin. „Út í gegn eru ofboðslega flottar myndir hjá henni. Þetta er mjög myndræn bók," segir Sverrir og vitnar í sína eftirlætis línu úr bókinni:

 Í rigningunni er malbikið
glitrandi hreistur

Þess vegna veitir því enginn athygli
þegar gríðarstór svört slanga
skríður upp úr hafinu
og hringar sig utan um flugvöllinn í Skerjafirði

„Þetta er frjótt ímyndunarafl barnsins og það er einhver hrár kraftur sem eykst út bókina," segir hann og bætir því við að hér sé á ferðinni vel heppnuð ljóðabók. Kolbrún tekur undir og segir bókina lýsa sálarangist barns með mjög næmt og mikið hugarflug. Barns sem fær martraðir sem fylgja því í gegnum bókina. „Þarna er minning um Grámann í Garðshorni sem verður ógnvekjandi, næstum eins og fígúra úr hrollvekju eftir Stephen King," segir hún glettin og dásamar einnig ljóðlínuna um snákinn og flugvöllinn. „Ég las kaflann sem þú last þrisvar mér fannst það svo vel gert," segir hún við Sverri. „Þetta er mjög vel heppnuð ljóðabók."

Fjallað var um Okfrumuna eftir Brynju Hjálmsdóttur í Kiljunni.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Sumt kemur eins og elding í höfuðið í uppvaskinu

Bókmenntir

Töfrar í barnslegu hræðsluástandi