Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hóteli breytt í sóttkví - gestir fengu uppfærslu

29.02.2020 - 12:57
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela sem reka Fosshótelið Lind við Rauðarárstíg, segir að gestir hótelsins hafi tekið því vel þegar þeim var tilkynnt að rýma þyrfti hótelið eftir að Sjúkratryggingar Íslands tóku það á leigu undir sóttkví fyrir útlendinga. Um 50 herbergi voru bókuð á hótelinu og fengu gestirnir uppfærslu úr þriggja stjörnu hóteli í fjögurra stjörnu. Þeir sem koma í kvöld og áttu bókaða gistingu fá ókeypis leigubíl í bæinn.

Davíð Torfi segir að þetta hafi borið brátt að. Hann hafi fengið símtal frá Sjúkratryggingum í gær og síðan þá hafi starfsfólkið legið yfir því hvernig væri hægt að leysa þetta. 

Íslandshótel eru með 6 hótel í Reykjavík og því reyndist verkefnið ekki ýkja flókið. „Þótt mars og febrúar séu ágætis mánuðir þá hefði þetta verið meira vesen ef þetta hefði verið yfir sumarið.“ Hann segir að fyrirtækið vilji líka sýna samfélagslega ábyrgð og leggja sitt af mörkum til að hefta úbreiðslu COVID-19 veirunnar.

 

María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga, segir í samtali við fréttastofu að þetta sé aðallega hugsað fyrir útlendinga og leigan á hótelinu sé algjör varúðarráðstöfun.

Rögnvaldur Ólafsson, deildarstjóri almannavarna, segir að hótel tikki í öll box sem þurfi í þessum aðstæðum. Þetta hafi verið hluti af áætlun stjórnvalda þegar að veiran kæmi til landsins. Hótelið verði tilbúið fljótlega.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV