Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hótel og veitingageirinn hvarf bara

23.03.2020 - 17:00
Mynd: EPA-EFE / EPA
Kristján Bragason, framkvæmdastjóri Evrópusamtaka verkalýðsfélaga starfsmanna í matvælaframleiðslu , landbúnaði og á hótelum og veitingahúsum, segir að áætla megi að af þeim 12 milljónum sem starfa í hótel- og veitingageiranum í Evrópu hafi 10 til 11 milljónir misst vinnuna vegna COVID-19. Atvinnugreinin sé hreinlega horfin og ekki verið hægt að koma henni aftur í gang nema með verulegum ríkisstyrkjum á næstu árum.

Samtökin sem Kristján stýrir hafa aðsetur í Brussel og ná til stéttarfélaga í 38 löndum. Þau ná til starfsmanna í landbúnaði, á hótelum og veitingahúsum, í matvælaframleiðslu, heimsendingarþjónustu og heimilishjálpar svo eitthvað sé nefnt. Kristján segir að staða félagsmanna sé mismunandi sem lýtur annars vegar að fjárhagslegri stöðu þeirra og hins vegar öryggi þeirra. Hann segir ástandið sé mjög slæmt í hótel- og veitingahúsageiranum. 

„ Það eru um 12 milljónir starfsmanna í hótel- og veitingageiranum í Evrópu. Ég myndi segja að 10-11 milljónir séu þegar búnir að missa vinnuna eða tapa launum og fá einhvers konar aðstoð frá hinu opinbera,“ segir Kristján.

Hann bara hvarf

Margir í þessum geira lendi milli stafs og hurðar vegna ótryggra ráðningarsambanda. Það þýði í mörgum tilfellum að aðgerðir stjórnvalda víða í Evrópu nái ekki til þessa hóps. Þessi hópur sé að tapa öllum sínum tekjum. Hótel- og veitingageirinn sé einfaldlega horfinn. Nær öllum hafi verið sagt upp.

„Já, hótel- og veitingageirinn er einfaldlega ekki til staðar lengur. Hann bara hvarf. Afleiðingarnar í þessari atvinnugrein hafa verið skelfilegar. Við sjáum ekki fram á það að það verði auðvelt að koma atvinnugreininni í gott stand aftur nema með verulegum ríkisstyrkjum á næstu árum,“ segir Kristján.

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Kristján Bragason

Landamæri lokuð

Ótrygg eða óljós ráðingarsambönd eru algeng í landbúnaði. Þar er algengt að störf séu árstíðabundin og að landbúnaðarverkamenn ferðist milli landa eftir því hvar vinnu er að fá. Kristján bendir á að búið sé að loka landamærum sem geri þeim erfitt fyrir. Margir þeirra komi frá Austur-Evrópu.

„Við erum að reyna að fá stjórnmálamenn í Evrópu til að opna landamærin fyrir þessum hópum og að reyna að tryggja að allir fái laun óháð ráðningarsambandi.“

Engan hlífðarbúnað að fá

Innan sambandsins sem Kristján stýrir eru líka fjölmargir launamenn sem starfa við heimsendingarþjónustu á matvælum og líka við sjálfa matvælaframleiðsluna. Hann segir að nauðsynlegt sé að tryggja öryggi þeirra. Sambandið hafi krafist þess að þeir fái hlífðarbúnað til að sinna sínum störfum.

„Þetta er fólk sem er að sinna mjög mikilvægum störfum í því umhverfi sem við búum við í dag. Því miður er það ekki að fá þann öryggisbúnað sem það þyrfti á að halda til að tryggja heilbrigði þeirra og heilsu,“ segir Kristján. Hann segir að hlífðarbúnaður sér hreinlega ekki til. Frá Spáni bárust þær upplýsingar að herinn þar hefði tekið allan hlífðarbúnað úr verksmiðjum á Madríd-svæðinu og farið með hann á sjúkrahúsin.

Kristján segir að miðað við stöðuna í hótel- og veitingahúsageirunum sé staðan í landbúnaði og matvælaframleiðslu ögn betri.

„Staðan í landbúnaði og í matvælaframleiðslunni er betri þar sem þetta eru mjög samfélagslega mikilvæg störf. Við þurfum að borða þó að við séum veik og það þarf að tryggja að matvæli séu á boðstólum. Engu að síður eru þessi störf undir miklu álagi og fyrirtæki eiga í mjög miklum fjárhagserfiðleikum þrátt fyrir að þau sé enn þá að fæða Evrópu,“ segir Kristján.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV