Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hótel Adam lokað: „Hann lofaði öllu fögru“

Mynd með færslu
 Mynd: Já 360° - Skjáskot
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lokaði Hótel Adam á Skólavörðustíg um fjögurleytið í dag. Hótelrekandi hafði fengið tveggja sólarhringa frest til að rýma hótelið en því var ekki lokið þegar lögreglu bar að garði. Þetta segir aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Nú fá síðustu gestir frest til klukkan ellefu í fyrramálið til að yfirgefa svæðið.

„Það var búið að gefa honum frest í fjörutíu og átta tíma en hann virðist hafa þurft meiri tíma,“ segir Sigurbjörn Jónsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Umsókn hótelsins um rekstrarleyfi hafi verið synjað af sýslumanni. Vísir greindi frá því í gær að hótelinu yrði lokað í dag.

Grunaður um að nota lokuð herbergi

Sigurbjörn segir að athugasemdir frá slökkviliðinu og heilbrigðiseftirlitinu hafi átt sinn þátt í því að sýslumaður synjaði umsókn hótelsins, sem og umsögn frá lögreglunni. Þar kom meðal annars fram að hótelrekandi hafi rofið innsigli lögreglu á nokkrum lokuðum herbergjum og grunur leikur á að hótelið hafi notað herbergin í leyfisleysi.

„Við lokuðum hjá honum herbergjum í fyrra sem hann hafði ekki leyfi fyrir,“ segir Sigurbjörn. Leyfi fyrir þeim herbergjum sem hótelið þó mátti reka hafi runnið út í nóvember í fyrra. „Hann lofaði öllu fögru en stóð ekki við það.“