Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hótar og ofsækir þrátt fyrir nálgunarbann

08.02.2016 - 12:54
Erlendur Eysteinsson er maðurinn sem hefur ofsótt Ásdísi Viðarsdóttur árum saman.
 Mynd: RÚV-Kastljós
Ásdís Viðarsdóttir sem sætt hefur ítrekuð ofbeldi, hótunum og ofsóknum af hendi Erlends Þórs Eysteinssonar í að verða fimm ár, þarf enn að búa við áreiti og hótanir hans. Fangelsisdómur og nálgunarbann virðast ekkert hafa að segja. Hún fagnar ábendingum lögreglustjóra sem vilja breytingar á lögum um eltihrella og segir þau löngu tímabær.

Ásdís sagði sögu sína fyrst í Kastljósi vorið 2014.  Hún hafði þá flutt til Þórshafnar á Langanesi undan hótunum og áreiti Erlends. Þau höfðu átti í stuttu sambandi árið 2011 og hann á þeim tíma beitt hana alvarlegu ofbeldi.

Eftir að hún sleit sambandinu hóf hann að áreita hana og hóta henni. Nálgunarbann hafði lítil áhrif. Ítrekuð mistök lögreglu við rannsókn ofbeldisbrota Erlends á hendur henni urðu til þess að hluti þeirra fyrndist, en tafir urðu á öðrum.

Síðan hafa nálgunarbönn ítrekað verið sett á Erlend. Þau hefur hann þó margsinnis rofið. Í sumar hlaut hann svo 14 mánaða fangelsisrefsingu í héraði fyrir ofbeldi gegn Ásdísi og vel á annað þúsund brot á nálgunarbanni, símhringingar og textaskilaboð sem innihéldu hótanir í garð hennar og ættingja hennar.

Ásdís fagnar því að Lögreglustjórar vilji að gerð verði breyting á frumvarpi innanríkisráðherra um aðgerðir gegn heimilisofbeldi. Þeir segja að þörf sé á því að styrkja úrræði fórnarlamba heimilisofbeldis og ofsókna auðveldara að fá frið fyrir gerendum. Ásdís segir sína reynslu og fjölda annarra sýna að breytingin sé þörf. Það sé ömurleg staðreynd að konur sem búi við ofbeldi veigri sér við að yfirgefa ofbeldismenn þar sem þær sjái fram á að fá ekki vernd fyrir ofsóknum þeirra og hótunum.

„Þetta er löngu tímabært,“ sagði Ásdís í samtali við Kastljós í dag.

Sjálf hefur hún reynt á eigin skinni hversu haldlítið nálgunarbann getur verið. Og hversu illa getur gengið fyrir fórnarlömb ofbeldis að sækja rétt sinn.

Eftir að dómur féll yfir Erlendi í sumar hófst hans aftur eftir nokkur hlé og stóð fram á haust. Enn var sett á nálgunrbann í lok ágúst. Það stendur enn. Ekki gekk þó áfallalaust að koma nálgunarbanninu á því enn einu sinni urðu mistök hjá lögreglu til þess að nálgunarbannið tafðist. Ásdís segir að það nálgunarbann hafi ekki virkað sem skyldi, nema rétt til að byrja með.

„Ég þarf því að fara að kæra enn aftur,“ sagði Ásdís í samtali við Kastljós í dag. „Hann hefur verið að hrella fjölskyldu mína. Son minn og sambýlismann sem hafa fengið sinn skerf í vetur og svo ég. Þetta eru alltaf sömu duldu hótanirnar. Það styttist í endalokin og eitthvað í þeim dúr.“

Hæstiréttur á enn eftir að fjalla um dóm héraðsdóms yfir Erlendi. 14 mánaðara fangelsisdómi áfrýjaði hann í haust. Ásdís segist þó óttast að jafnvel þó dómurinn verði staðfestur geti liðið langur tími þar til Erlendur þurfi að taka út refsingu. Hún óttist því áhrif þess á sig og fjölskyldu sína.

„Við vitum nú hvernig fangelsismálin standa. Hvað gerir hann þá ef þeir staðfesta og hann hefur tíma. Fer ekki beint inn. Lætur hann þá ekki bara verða af þessum hótunum. Það er það sem maður óttast. Hvort hann ráðist gegn mér eða börnunum mínum. Þessar hótanir halda alltaf áfram og hann er ekkert að hætta. Hann á langa sögu af því að beita ofbeldi og hefur hingað til komist upp með það. Ég er því hrædd um að þetta sé ekkert að hætta,“ segir hún.

„Nú er komið 2016. Ég kærði fyrst 2013. Það hefur ekkert breyst nema að ég flúði í burtu.“