Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hótar „gjöreyðingu“ tyrknesks efnahagslífs

epa07904655 US President Donald J. Trump takes questions from the press after the US-Japan Trade Agreement and US-Japan Digital Trade Agreement were signed in the Roosevelt Room of the White House in Washington, DC, USA, 07 October 2019.  EPA-EFE/Ron Sachs / POOL
 Mynd: EPA-EFE - CNP POOL
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hótar að leggja efnahagslíf Tyrklands í rúst, láti þeir verða af boðaðri innrás sinni í Kúrdahéruðin í Norður-Sýrlandi. Er þetta nokkuð á skjön við tilkynningu sem Hvíta húsið sendi frá sér á sunnudag þar sem í engu var sett út á þá ætlan Tyrkja, heldur einungis tekið fram að Bandaríkin myndu ekki styðja aðgerðir þeirra gegn Kúrdum, um leið og boðað var að Bandaríkjaher yrði kallaður frá svæðinu.

Sú tilkynning markaði algjöra kúvendingu á stefnu Bandaríkjanna og framkallaði harða gagnrýni, meðal annars frá þungavigtarfólki í röðum Repúblikana í báðum deildum Bandaríkjaþings sem sökuðu Trump um að svíkja dygga bandamenn í stríðinu gegn Íslamska ríkinu. Leiðtogar Kúrdísku sveitanna sem börðust með Bandaríkjunum í Sýrlandi brugðust líka ókvæða við þessari ákvörðun Trumps og sögðu hana sem rýtingsstungu í bakið.

Varnarmálaráðherra Tyrklands lýsti því svo yfir á Twitter í gær að undirbúningi fyrir innrásina væri lokið og bráðnauðsynlegt að hreinsa landamærasvæðið af hryðjuverkasveitum Kúrda hið fyrsta. 

„Af minni miklu og óviðjafnanlegu visku“

Trump svaraði bæði gagnrýnendum sínum og Tyrkjum á Twitter í gær. Þar varaði hann Tyrki við því að gera nokkuð það sem hann, af hans „stórkostlegu og óviðjafnanlegu visku“ teldi óásættanlegt, því þá myndi hann „gjöreyða og þurrka út Efnahagslíf Tyrklands,“ og ýjaði að því að hann hefði gert það áður. Trump hefur reyndar notað þessa sömu hótun áður í deilum við Tyrki.

Óstaðfestar fregnir herma að liðsflutningar Bandaríkjahers frá Kúrdahéruðunum við tyrknesku landamærin séu þegar hafnir, en í litlum mæli þó. Hermt er að á bilinu 25 - 100 af þeim ríflega 1.000 bandarísku hermönnum sem verið hafa á svæðinu séu farnir.