Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hótað fyrir að berjast gegn heimilisofbeldi

24.11.2019 - 11:09
Mynd með færslu
 Mynd: http://duma.gov.ru/ - Rússneska þingið
Rússnesk þingkona sem berst fyrir því að lög gegn heimilisofbeldi verði samþykkt í landinu fær daglega sendar hótanir. Talið er að árlega láti hundruð kvenna í Rússlandi lífið eftir að hafa verið beittar ofbeldi á eigin heimili. 

Á meðan konur fjölmenntu í tugþúsundatali á götum Parísar og fleiri borga í Frakklandi í gær til að mótmæla kynbundnu ofbeldi söfnuðust nærri 200 manns saman í Moskvu til þess að mótmæla löggjöf sem ætlað er að herða refsingar fyrir heimilisofbeldi.

Skipuleggjandi mótmælanna er Andrey Kormukhin, aðgerðasinni úr rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni. Hann segir í samtali við AFP fréttastofuna að núgildandi lög verji konur nógu vel og heldur því fram að breytingatillögur gangi gegn „hefðbundnum fjölskyldugildum“.  

Oksana Pushkina, samflokksmaður Pútíns Rússlandsforseta, í flokknum Sameinuðu Rússlandi, hefur verið áberandi í baráttunni fyrir því að umdeild lög í landinu frá árinu 2017 verði felld úr gildi, en samkvæmt þeim telst heimilisofbeldi nú til smáglæps.

Pushkina vill að löggjöf gegn heimilisofbeldi verði samþykkt í landinu í fyrsta sinn. Hún segir að samkvæmt núgildandi lögum sé fólki heimilt að berja alla fjölskyldu sína. Þetta sé virkilega slæm löggjöf. Pushkina leggur til að hægt verði að óska eftir nálgunarbanni til að halda ofbeldismönnum fjarri, en slíkt bann hefur ekki áður þekkst í Rússlandi, aðgerðir gegn kynferðislegu áreiti og leiðir til að efla jafnrétti kynjanna.

Hún hefur þurft að mæta miklu mótlæti og fær daglega haturspósta. Yfir 180 hópar úr rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni hafa skrifað opið bréf til Rússlandsforseta þar sem hann er hvattur til að koma í veg fyrir að lagafrumvarp hennnar verði samþykkt. Hóparnir halda því fram að frumvarpið sé verk „erlendra fulltrúa“ og þeirra sem „styðji róttæka femíníska hugmyndafræði“.

BBC segir að ekki séu haldnar skrár í Rússlandi yfir fjölda þeirra sem láta lífið eftir heimilisofbeldi en að innanríkisráðuneytið segi að 40 prósent alvarlegra glæpa og ofbeldisglæpa eigi sér stað innan fjölskyldna. Talið er að á hverju ári láti hundruð kvenna í Rússlandi lífið eftir að hafa verið beittar ofbeldi á eigin heimili. 

Alþjóðlegur dagur Sameinuðu þjóðanna tileinkaður útrýmingu ofbeldis gagnvart konum er á morgun. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV