Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hórur Babýlons og Hollywood

Mynd: D.W. Griffiths / Intolerance

Hórur Babýlons og Hollywood

22.03.2020 - 13:09

Höfundar

Þórður Ingi Jónsson rýnir í bókina Hollywood Babylon sem kom út fyrir rúmlega hálfri öld. Í henni mátti finna rætnar slúðursögur um helstu stjörnur kvikmyndaiðnaðarins á fyrri helmingi 20. aldarinnar.

Þórður Ingi Jónsson skrifar:

Í kjölfar metoo-hreyfingarinnar hafa fregnir af ýmsu misjöfnu í kynferðismálum og vondum hlutum sem leynast í Hollywood hneykslað marga. Ef það er hins vegar einhver sem hefur ekki kippt sér upp við þessar fréttir, þá er það listamaðurinn alræmdi Kenneth Anger. Fyrir honum er þetta gömul saga og ný. Árið 1959 hneykslaði Anger heiminn þegar hann gaf út bókina Hollywood Babylon. Með bókinni náði Anger að breyta slúðri í listform en þar rakti hann rætnar sögur af stjörnum Hollywood á gullskeiði draumaverksmiðjunnar og dró ekkert undan.

Það sem gerði bókina sérstaklega umdeilda var að Anger sagði þar sögur um ýmsar ástkærar og elskaðar stjörnur og gaf lítið fyrir öruggar heimildir. Þótt bókin sé glannalegt samansafn af gróusögum þá er hún enn goðsagnakennd bók í augum kvikmyndaáhugamanna víða um heim.

„Hollywood framleiðir hneyksli. Hér hafa þau verið framleidd frá fyrsta degi,” sagði Anger, spurður um áhrif metoo í viðtali við Hollywood Reporter fyrir þremur árum. „Hollywood hefur alltaf verið samheiti yfir syndina,” sagði hann.
Anger er brautryðjandi í kvikmyndaheiminum - hann var til dæmis fyrstur til að nota popptónlist sem bakgrunnstónlist í kvikmynd og er einn af fyrstu leikstjórum heimsins sem talaði opinskátt um það að vera samkynhneigður. Hann er reyndar mun virtari fyrir kvikmyndir sínar en bókina umdeildu, Hollywood Babylon.

Anger skrifaði bókina um miðjan sjötta áratuginn þegar hann sárvantaði pening en hún var bönnuð tíu dögum eftir að hún kom út í Bandaríkjunum árið 1965. Aðspurður sagðist Anger hafa fengið upplýsingarnar að handan, með skyggnigáfu sinni - sem passar vel við skopskyn Angers, en hann hefur alltaf verið upptekinn af göldrum og dulspeki. Staðreyndin er sú að sem barn varð hann strax mjög upptekinn af slúðrinu í Hollywood þökk sé ömmu hans, sem fór oft með hann í bíó og sagði honum bransasögur, sem voru ekki endilega börnum hæfar. Hann fór því snemma að safna blaðaúrklippum um hneykslin sem áttu sér stað á uppvaxtarárum hans heima í Los Angeles. Anger sagði seinna að þessar sögur væru eins konar Grimms-ævintýri þögla tímabilsins.

Í hinum fræga Hollywood Forever kirkjugarði í Los Angeles hvíla margar þær stjörnur sem Hollywood Babylon fjallar um. Anger, sem er 93 ára í dag, heimsækir enn kirkjugarðinn við og við, þar sem margir gamlir félagar hans hvíla. „Lengi trúði ég ekki á dauðann, rétt eins og hún amma mín,” sagði Anger í heimildarmynd sem BBC gerði árið 1991.

„Fyrir mér var dauðinn aðeins breytingarferli - tæknibrella á tjaldinu þar sem eitt atriðið blandaðist inn í hið næsta. Ég vildi nálgast hetjur mínar sem jafningi þeirra, enda hafði ég líka eitt sinn leikið í kvikmynd í Hollywood.” Anger vísar þar í kvikmyndina Draum á Jónsmessunótt frá 1935 en Anger hélt því lengi fram að hann hefði leikið álfaprinsinn í myndinni. Mörgum árum seinna kom í ljós að þetta stóðst ekki skoðun - það var lítt þekkt stúlka að nafni Sheila Brown sem hafði í raun leikið hlutverkið. Þetta er gott dæmi um hvernig Anger fer stundum á svig við sannleikann ef þannig má að orði komast. Hann elskar að ljúga og valda usla - enda hefur hann ófáum sinnum verið kallaður „le enfant terrible” í Hollywood - slæmi strákurinn. 

„Sögurnar sem vekja áhuga minn eru ekki aðeins dæmigerð hneykslismál - þær teygja anga sína alltaf inn á vettvang harmleiksins. Sögurnar þurfa að vera mikilfenglegar á einhvern hátt. Þær þurfa að lýsa því hvernig frægðin og dýrðin tortímist í hinum mennska harmleik,” sagði Anger. Ýmsar sögurnar í Hollywood Babylon lifa enn góðu lífi, þótt hinar og þessar hafi verið afsannaðar í tímans rás. Fyrir tveimur árum fór til dæmis kvikmyndagagnrýnandinn Karina Longworth yfir hinar ýmsu staðhæfingar Angers í hlaðvarpi sínu You Must Remember This til að komast að sannleikanum. „Það er næstum ómögulegt að vita sannleikann á bak við þessar sögur,” sagði Karina. „Meðal annars af því að það er svo langt síðan og af því að fjölmiðlar í Hollywood á þessum tíma prentuðu svo mikið af röngum upplýsingum.” 

Verjendur Anger segja að ekki eigi að taka Hollywood Babylon bókstaflega. Þeir segja bókina tilraun til að nýta það hvernig sannleikurinn beygist og teygist í kringum ímynd stjarnanna á glettinn hátt. „Hinar fjölmörgu dæmisögur um samband góðs og ills endurspeglast á litríkan hátt í skemmtanaiðnaðinum,” hélt Anger fram. „Þetta er rauði þráðurinn í Hollywood Babylon.”

„Sálin festist í glamúrnum,” sagði Anger. „Á nítjándu öld áttu Kínverjar það til að flýja frá myndavélinni. Ég held að það hafi verið eitthvað til í þessu hjá þeim. En ég held að við verðum að sætta okkur við þetta hlutskipti. Við þurfum að geyma nógu mikið af sál okkar til að það megi stela örlitlu af henni. Kvikmyndatæknin er illska sem ég er fullkomnlega tilbúinn til að eiga við.” Þá telur hann það enga tilviljun að uppruni orðsins glamúr sé í galdrafárinu en glamúr er gamalt orð um álög. 

Upp úr níunda áratugnum lagði Anger kvikmyndagerð tímabundið á hilluna en fór aftur að vanta pening og gaf þá út framhaldsbók - Hollywood Babylon II. Að sögn Angers hefur hann á seinustu árum lagt lokahönd á þriðju bókina. Hún hafi þó verið sett í bið, þar sem heill kafli sé tileinkaður Vísindakirkjunni alræmdu, sértrúarsöfnuðinum sem hefur enn þónokkur ítök í Hollywood. „Ég er ekki vinur Vísindakirkjunnar - hún á það til að setja mann á svarta listann,” sagði Anger.

Árið 2008 gáfu tveir óprúttnir aðilar út óopinbert framhald af Hollywood Babylon án samþykkis Angers. Hann var svo ósáttur við það að hann segist hafa lagt álög á höfundana. „Ég er einfaldlega að skrásetja mistök, geðveilu og óhóf stjarnanna. Margar þeirra hlutu ljóta dauðdaga. Sumar þeirra völdu að svipta sig lífi og tortíma sér þannig á dramatískan hátt - vitandi að það yrði síðasta fyrirsögnin,” sagði Anger, sem er enn mikil „költhetja“ í borg englanna og víðar. „Ég elska Hollywood,” sagði Anger á sínum tíma. “Hún hefur veitt mér lífstíð af skemmtun og innsæi inn í hið mennska ástand. Já, það er ýmislegt rangt við Hollywood, svo sem valdamisnotkunin og fleira. En samt sem áður er líka margt frábært við Hollywood. Gömlu bíóhúsin voru byggð á sínum tíma til að hafa virðuleg og undraverð áhrif á sálina og ótal frábær listaverk hafa verið framleidd hér í gegnum tíðina.”

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Kúgandi valdakerfi kynferðislega rándýrsins í Hollywood

Sjónvarp

„Þessi saga er ekki bara um Harvey Weinstein“

Pistlar

Morð og myrkraverk í Barbíhöfuðborg heimsins

Hafnarfjarðarkaupstaður

Hollywood lét fjarlægja stjörnu Björgvins úr gangstétt