Hormónaraskandi efni - meiri kostnaður

Mynd: Getty Images/Caiaimage / Getty images

Hormónaraskandi efni - meiri kostnaður

10.03.2015 - 09:05

Höfundar

Sífellt bætist við vísbendingar um alvarlegar afleiðingar hormónaraskandi efna sem finna má í ýmsum neytendavörum. Þar má nefna krabbamein í eistum, ófrjósemi, vansköpun kynfæra og fleira. Samkvæmt nýrri skýrslu segjast vísindamenn 99% vissir um að þessi efni stuðli að athyglisbresti og sykursýki.

Í sömu skýrslu er síðan reynt að leggja mat á kostnað heilbrigðiskerfa af notkun þessara efna. Stefán Gíslason fjallar um þetta í pistli sínum í Samfélaginu:

Hormónaraskandi efni hafa verið til umfjöllunar í Samfélaginu af og til, enda erfitt að horfa fram hjá þeim þegar rætt er um umhverfismál og heilsu. Þessi efni finnast í ýmsum neytendavörum og geta, eins og orðið „hormónaraskandi“ bendir til, raskað hormónastarfsemi í líkömum manna og annarra dýra. En áhrif þessara efna birtast ekki bara í ótímabærum kynþroska, vansköpun kynfæra og krabbameini í eistum. Í frétt sem birtist á heimasíðu National Geographic síðasta fimmtudag kom til dæmis fram að vísindamenn séu orðnir 99% vissir um að hormónaraskandi efni stuðli að athyglisbresti og sykursýki, svo eitthvað sé nefnt. Þarna er verið að vísa í niðurstöður hóps vísindamanna sem birtist í fjórum stórum skýrslum sem birtar voru þennan sama fimmtudag.

Vísindamennirnir sem um ræðir hafa unnið að því mánuðum saman að meta þátt hormónaraskandi efna í ýmsum kvillum. Þetta er ekki auðvelt starf, því að auðvitað koma ýmsir aðrir orsakavaldar inn í þessa mynd. En eftir að hafa lagst yfir tiltækar rannsóknarniðurstöður og lagt mat á þær með viðurkenndum aðferðum voru vísindamennirnir sammála um að hormónaraskandi efni ættu líklega þátt í lækkaðri greindarvísitölu og tengdum vitsmunalegum vandamálum, einhverfu, ADHD, offitu barna, offitu fullorðinna, sykursýki fullorðinna, launeistun, ófrjósemi karlmanna og dauðsföllum sem tengjast testósteronskorti. Og með því að beita svonefndri Monte Carlo hermun og reiknilíkönum frá Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar komst hópurinn að þeirri niðurstöðu að árlegur kostnaður ríkja Evrópusambandsins vegna þessara efna næmi samtals 157 milljörðum evra á ári ef notuð væru miðgildi úr öllum líkindareikningum. Þessi upphæð samsvarar 1,23% af vergri landsframleiðslu Evrópusambandsríkjanna. Reyndar má hugga sig við að þegar kostnaðurinn var reiknaður út frá lágmarkslíkum í hverju tilviki varð niðurstöðutalan ekki nema 109 milljarðar evra. Það samsvarar rétt um 215 evrum á hvert mannsbarn í ríkjum sambandsins. Á núverandi gengi eru 215 evrur eitthvað um 32 þúsund íslenskar krónur, þannig að ef við gefum okkur að kostnaður á hvert mannsbarn sé sá sami á Íslandi og í ESB, þá er árlegur kostnaður íslensks samfélags vegna þessara efna um 10,4 milljarðar króna. Það er sem sagt sú fjárhæð sem það kostar okkur líklega að glíma við heilsufarslegar afleiðingar efnanna.

Verðmiði aðgerðaleysisins
Þessar vangaveltur um krónur og aura, (við getum reyndar alveg sleppt því að tala um aura í þessu sambandi), minna á norræna skýrslu um sama efni sem kom út síðasta haust undir yfirskriftinni The Cost of Inaction, eða Verðmiði aðgerðaleysisins, og sagt var frá hér í Samfélaginu 17. nóvember síðastliðinn. Þar var að finna aðra útreikninga sem bentu til að kostnaður íslensks samfélags vegna hormónaraskandi efna væri um 150 milljónir króna á ári. Þar var hins vegar bara verið að skoða kostnað vegna tiltekinna fjögurra heilsufarsvandamála. Og það fylgdi sögunni að líklega mætti margfalda töluna með 25 ef allur kostnaður vegna hormónaraskandi efna væri tekinn með í reikninginn. Þá hefði talan verið komin upp í tæpa 4 milljarða króna á ári. En hér erum við sem sagt að tala um enn hærri tölu, eða 10,4 milljarða. Og þá er samt enn verið að setja lægstu líkindin inn í Monte Carlo hermunina, þannig að í raun gæti kostnaðurinn verið enn meiri. Miðgildið sem ég talaði um áðan myndi t.d. gefa niðurstöðu upp á 15 milljarða króna á ári.

Nú er eðlilegt að spurt sé í hverju þessi gríðarmikli kostnaður liggi aðallega. Í skýrslunum sem birtar voru á fimmtudaginn kemur fram að langstærsti einstaki kostnaðarliðurinn tengist áhrifum efnanna á þroskun heilastarfsemi í börnum. Í þessu eina atriði gætu jafnvel rúm 80% af kostnaðinum legið. Og sökudólgarnir í því dæmi eru öðru fremur sagðir vera annars vegar ýmis algeng varnarefni, og þá er væntanlega einkum átt við skordýraeitur og illgresiseyða, og hins vegar eldtefjandi efni sem hafa m.a. verið mikið notuð við framleiðslu á húsgögnum og raftækjum. Margar rannsóknir hafa bent til að þessir efnaflokkar trufli þroskun taugakerfisins og breyti starfsemi skjaldkirtils og grípi þannig inn í þroskun heila á fósturstigi.

Nú er eðlilegt að spurt sé aftur í hverju þessi kostnaður vegna truflunar á þroskun heilans birtist eiginlega. Þar koma reyndar ýmsir kostnaðarliðir við sögu en þarna er meðal annars verið að tala um kostnað við læknismeðferð og vegna sérkennslu og annarrar þjónustu við börn og fullorðna með skerta greind, námsörðugleika og hegðunarvandkvæði, þ.e.a.s. þann hluta þessa kostnaðar sem líklegt er að hormónaraskandi efni eigi sök á.

Umræða í Evrópu
Það er engin tilviljun að þessar skýrslur um áhrif hormónaraskandi efna koma út einmitt núna, því að um þessar mundir á sér stað mikil umræða innan Evrópusambandsins um löggjöf til að koma traustari böndum á notkun efnanna. Þessa dagana er Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að mynda önnum kafin við að fara yfir rúmlega 27.000 athugasemdir sem henni bárust í umsagnarferli vegna umdeildrar tillögu um það hvernig skilgreina skuli hormónaraskandi efni. Þessi skilgreining átti að vera tilbúin fyrir árslok 2013 og er suma farið að lengja talsvert eftir henni. Það á m.a. við um stjórnvöld í Danmörku og Svíþjóð, sem hafa beinlínis kært framkvæmdastjórnina fyrir seinagang í málinu, að því er fram kemur í frétt National Geographic. Samkvæmt nýjustu áætlunum býst framkvæmdastjórnin við að mati á áhrifum hugsanlegrar reglugerðar um hormónaraskandi efni verði lokið árið 2016. Það bendir sem sagt flest til að menn þurfi að ræða málin töluvert meira áður en almennar takmarkanir á notkun þessara efna líta dagsins ljós. Og líklega verður árið 2020 runnið upp áður en hugsanlegar Evrópureglugerðir um þetta taka formlega gildi í löndum Evrópska efnahagssvæðisins, þ.á.m. á Íslandi.

Hvað getur íslenskur almenningur og stjórnvöld gert?
Því er eðlilegt að spurt sé hvað íslenskur almenningur og íslensk stjórnvöld geti gert þangað til, annað en að nota 10 eða 15 milljarða af takmörkuðum sjóðum á hverju ári til að berjast við afleiðingar aðgerðaleysisins. 

Ætli svarið við þessari spurningu sé ekki tvíþætt. Annars vegar geta stjórnvöld í það minnsta gert sitt til þess að almenningur sé vel upplýstur um þessi efni og áhrif þeirra. Og hins vegar getur þessi almenningur, þ.e.a.s. við öll, haft það hugfast að við erum ekki bara fórnarlömb, heldur getum við haft heilmikil áhrif með orðum okkar og gjörðum. Við getum til dæmis farið sparlegar með ýmsar vörur en við gerum, til að mynda snyrtivörur. Við getum keypt Svansmerktar eða aðrar umhverfismerktar vörur sem eru að öllum líkindum lausar við hormónaraskandi efni. Við getum líka keypt lífrænt vottaðar vörur, upprunnar úr landbúnaði þar sem notkun eiturefna er bönnuð. Og svo getum við spurt, við öll hugsanleg tækifæri, um það hvort varan sem við erum að hugsa um að kaupa, þar með talin húsgögn og raftæki, innihaldi einhver hormónaraskandi efni. Svörin liggja ekki alltaf á lausu, en ef enginn spyr hljóta framleiðendur og seljendur að túlka það svo að öllum sé sama. Og síðast en ekki síst þurfum við að vanda okkur sérstaklega við að halda hormónaraskandi efnum frá verðandi mæðrum og ungabörnum, því að þar er grunnurinn lagður að því sem koma skal.