Horft á okkur sem ómenntuð kynlífsleikföng

Mynd með færslu
 Mynd:

Horft á okkur sem ómenntuð kynlífsleikföng

27.07.2014 - 20:09
Asískar konur mæta miklum fordómum í íslensku samfélagi. Gengið er útfrá því að þær séu kúgaðar, ómenntaðar vændiskonur. Þetta segir Cynthia Trililani sem hefur búið á Íslandi í tíu ár.

Cynthia er fædd í Indónesíu en hefur búið á Íslandi í áratug. Hún er með tvær háskólagráður og er, ásamt störfum á leikskóla, í tvöföldu meistaranámi. Hún segir að Íslendingar horfi á asískar konur sem undirgefin kynlífsleikföng, fátækar, kúgaðar, ómenntaðar og huglausar. Þetta kom fram í ræðu hennar á Austurvelli í gær, þar sem fjölmenn Drusluganga endaði. 

„Þegar ég var að sækja um starf, var mér ráðlagt að sækja um starf sem nuddari, sem er reyndar ekki starfssvið mitt. Það eru margar sprenglærðar asískar konur hér á landi, sem geta því miður ekki fengið góð störf sem þær eru menntaðar til að gegna, væntanlega vegna tungumálaörðugleika,“ segir hún. Íslenska sé ein stærsta hindrun innflytjenda, þar sem tungumálið er afar erfitt. 

Kallaðar asískar píkur
Hún segir að hópum asískra kvenna sé oft meinað inngöngu að skemmtistöðum, sem segjast þurfa að vernda ákveðna ímynd. Auk þess séu niðrandi athugasemdir frá íslenskum karlmönnum algengar, þær séu sem dæmi kallaðar asískar píkur. „Þegar ég fer út að skemmta mér, ganga þeir útfrá því að ég sé vændiskona. Þeir koma og spyrja mig hversu mikið það kosti að eyða með mér tíma.“

Cynthia segir að mikið hugrekki þurfi til þess að flytjast búferlum til Íslands frá Asíulöndum. Ósanngjarnt sé að stórir hópar fólks séu dæmdir eingöngu út frá litarhafti og þjóðerni. Að hennar mati þrífast fordómar í hverju samfélagi. „Og að mínu mati hafa allir einhverja fordóma. Í grunninn spretta þeir upp af vanþekkingu.“ Cynthia kallar eftir því að fólk hætti að líta á hana og aðrar asískar konur sem útlendinga, frekar sem vinkonur, samlanda eða nágranna.

[email protected]

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Ítrekað þvingaðar í ófrjósemisaðgerðir

Stjórnmál

Þingsályktunartillaga kynnt druslum

Höfuðborgarsvæðið

Druslur fylltu stræti miðborgarinnar