Horfði á flóðbylgjuna skella á stofugluggunum

15.01.2020 - 19:38
Mynd: Ágúst Orri Valsson / Ágúst Orri Valsson
„Þetta var ansi mikill hávaði og rosaleg læti,“ segir íbúi á Suðureyri um hamfarirnar í gærkvöldi. Þegar hún heyrði drunur frá snjóflóðinu hinum megin í firðinum stökk hún inn í stofu þar sem hún sá flóðbylgju skella á húsinu.

Snjóflóðið sem féll í norðanverðum Súgandafirði klukkan rúmlega ellefu í gærkvöldi olli flóðbylgju sem fór þvert yfir fjörðinn og lenti á Suðureyri. Flóðið skall á nokkrum íbúðarhúsum í þorpinu, þar á meðal húsinu við Aðalgötu 49 þar sem hjónin Margrét Sigurðardóttir og Guðmundur Ágústsson búa. 

„Ég heyrði bara drunur og fór fram í stofu,“ segir Margrét. „Og þegar ég kem fram sé ég að það kemur bara skellur á glugganum, og gluggarnir nötruðu, ég hélt að þeir myndu brotna og koma inn.“

Voru þetta mikil læti?

„Þetta var ansi mikill hávaði og rosaleg læti þegar flóðbylgjan skellur á húsinu.“

Búast við fleiri flóðum

Margrét segist strax hafa áttað sig á því hvað var að gerast. Eitthvað af vatni flæddi inn á jarðhæðina í húsi þeirra hjóna, auk þess sem bíll þeirra kastaðist til. Lítið tjón varð þó á honum.

„Maður varð svona aðeins skelkaður en svo þegar maður sá að allt var í lagi, þá varð maður rólegri. Maður vonaðist til að þetta yrði ekki meira.“

Nokkur hús á Suðureyri voru rýmd í nótt, þar á meðal hús Margrétar og Guðmundar, og var fólkið flutt á hótelið í bænum. Óljóst er hvenær þau fá að snúa aftur heim.

„Þeir eru að búast við fleiri flóðum úr hlíðinni innar í firðinum.“

Hvernig er stemningin í bænum eftir þessa atburði?

„Bara ósköp róleg. Fólk er bara mjög rólegt og yfirvegað og tekur þessu með stóískri ró,“ segir Margrét.