Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Horfði á Breta og Þjóðverja berjast í firðinum

13.09.2019 - 15:31
Mynd: RÚV/Rúnar Snær Reynisson / Jóhann Sveinbjörnsson
„Þetta var gósentíð fyrir okkur strákana. Það var alltaf vörður við skúrinn og eftir því sem á hans ferðum stóð gátum við fært okkur á milli steina og alveg upp að þessari geymslu. Það mátti aldrei læsa dyrunum á þessum sprengjugeymslum vegna þess að það þurfti að grípa til þess í snarhasti þegar flugvélarnar komu. Þarna fylltum við okkur og skriðum svo út,“ segir Jóhann Sveinbjörnsson á Seyðisfirði.

Börnin eignuðust sprengjur og fallhlífar

Þegar hann ólst upp geisaði seinni heimsstyrjöldin og hann horfði á Þjóðverja og Breta berjast í firðinum. Börnin útveguðu sér líka hergögn og skemmtu sér. Þjóðverjar herjuðu á skip í firðinum með sprengjuvélum sem flugu frá norður Noregi. Hann var 10 ára þegar þýsk vél grandaði tankskipinu El Grillo sem enn hvílir á botni fjarðarins og lekur olíu. Ýmislegt vafasamt en skemmtilegt úr skipinu lenti í höndum barnanna, ljósablys sem þau börðust með og fallhlífar. „Þær voru notaðar til þess að stökkva niður af húsþökum og svífa niður," segir Jóhann.  Stundum þöndust þær ekki út og þá var lendingin hörð. 

Loftið svart eftir sprengikúlur

„Við strákarnir vorum aldrei hræddir, þetta var bara eins og í cowboy-mynd að fylgjast með þessu öllu saman. Á haustin þegar maður kom úr sveitinni gat maður fylgst vel með þessu því að flugvélarnar, þessar þýsku, stundum voru þær daglega í langan tíma hér yfir. Það var mikið skotið og loftið var bókstaflega svart af sprengikúlum sem sprungu í loftinu.“

Hitti nasista í Austur-Þýskalandi

Jóhann hefur alla tíð verið hugfanginn af stríðinu og munir í hans eigu gætu fyllt heilt safn og sögurnar af ævintýrum krakka á stríðsárunum heila bók. Síðar þegar hann varð ungur maður átti hann eftir að hitta gamla nasista árið 1953, í Austur-Þýskalandi.

„Þá var ég ljóshærður og klipptur eins og nasisti, ég var það alltaf yfirleitt, mjög snöggklipptur og sennilega hefur þeim litist vel á þennan ekta Aría því þeir ætluðu að éta mig alveg. Þetta voru allskonar menn og með einglyrni og allan fjandann. Auðvitað voru þetta gamlir nasistar allt saman. Þeir fóru að þreifa á mér, á vöðvunum og svona vegna þess að maður var þá í fullu fjöri, brjóstvöðvunum og handleggjavöðvunum.

Ítarlegt viðtal í Sögum af landi

Rúnar Snær Reynisson ræddi við Jóhann í þættinum Sögur af landi og saman fóru þeir aftur til fimmta áratugarins,  á Seyðisfirði. Jóhann segir frá því í smáatriðum þegar El Grillo var sökkt, samskiptum krakka og hermanna og leikjum barna með hergögnin.

Sögur af landi er á dagskrá Rásar 1 á föstudögum klukkan 15:03 og endurfluttur á sunnudögum klukkan 13:00.

Finna má fyrri þætti á síðu þáttarins og í hlaðvarpi RÚV