Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Hörð gagnrýni á stjórnsýslu bankans“

25.01.2019 - 18:02
Mynd með færslu
 Mynd: Hreiðar Þór Björnsson  - RÚV
Umboðsmaður Alþingis telur að svar Seðlabanka Íslands til Þorsteins Más Baldvinssonar, þegar hann óskaði eftir því að stjórnvaldssekt bankans yrði afturkölluð, hafi ekki verið í samræmi við lög. Formaður bankaráðs Seðlabankans segir að í álitinu komi óneitanlega fram hörð gagnrýni á stjórnsýslu bankans í málinu.

Álit umboðsmanns birtist á vef embættisins í dag. Þar gagnrýnir hann að forsvarsmenn bankans hafi ekki upplýst hann um afstöðu ríkissaksóknara um að lagagrundvöll skorti fyrir því að ætluð brot gegn lögum um gjaldeyrismál gætu varðað stjórnvaldssekt. Þessi vinnubrögð séu gagnrýniverð í ljósi þess eftirlits sem umboðsmanni sé falið samkvæmt lögum.  

Þorsteinn Már Baldvinsson segir í samtali við fréttastofu að hann líti á álit umboðsmanns sem gríðarlegan áfellisdóm yfir starfsmönnum Seðlabankans. Í því sé tekið undir það sem hann hafi gagnrýnt í stjórnsýslu bankans og hvernig starfsmenn hans hafi farið fram gegn Samherja. Þá segir Þorsteinn álitið staðfesta það að starfsmenn bankans hafi ekki getað annað en vitað að þeir hafi verið að brjóta lög. Álitið sé víðtæk gagnrýni á svo margt hjá bankanum.

Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabankans, segir að bankaráðið hafi tekið álitið til umfjöllunar á fundi sínum í morgun. Hann segir að óneitanlega komi fram hörð gagnrýni í áliti umboðsmanns á stjórnsýslu bankans í málinu. Bankaráð hafi á fundi sínum ályktað að bankinn ætti að bregðast við þessu og taka málið upp í samræmi við ábendingar umboðsmanns. Kanna ætti hvort taka þyrfti upp önnur sambærileg mál. 

Gylfi segir að þetta álit hafi verið eitt af því sem bankaráðið vildi skoða áður en þeir gengju frá svari til forsætisráðherra varðandi Samherja-málið. Gylfi segir að það fari að styttast í svar bankaráðsins þótt hann vilji ekki lofa neinum dagsetningum.