Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hörð deila um Jökulsárlón á leið fyrir dóm

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Ferðaþjónustufyrirtækið Ice Lagoon ehf hefur krafið Hornafjörð um skaðabætur upp á 223 til 273 milljónir króna. Verði ekki fallist á viðræður um skaðabótakröfuna ætlar fyrirtækið að leita réttar síns fyrir dómstólum. Bæjarráð Hornafjarðar hafnaði kröfunni á fundi sínum í gær.

Ice Lagoon hefur staðið í deilum við Jökulsárlón ehf og Hornafjörð vegna starfsemi sinnar við Jökulsárlón undanfarin ár en fyrirtækið siglir með ferðamenn um lónið á slöngubátum.

Bæjarráði Hornafjarðar barst harðort bréf frá lögmanni Ice Lagoon í september.  Þar kom meðal annars fram að við skoðun á forsögu málsins og fyrirliggjandi gögnum yrði vart „komist að annarri niðurstöðu en að sveitarfélagið, og eftir atvikum einstakir fulltrúar þess, hafi ekki gætt jafnræðis við úrlausn mála og jafnvel komið fram af valdníðslu og hlutdrægni í ákveðnum tilvikum.“  Félagið hefði orðið af tekjum á bilinu 280 til 400 milljónir.

Ice Lagoon fékk síðan endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young til að meta fjárhagslegt tjón félagsins sem Hornafjörður, Jökulsárlón Ferðaþjónusta og Vatnajökulsþjóðgarður hefðu valdið fyrirtækinu frá árinu 2010 til ársins 2017.  Í bréfi til formanns bæjarráðs Hornafjarðar kemur fram að Ernst & Young hafi áætlað fjárhagslegt tjón á bilinu 223 til 273 milljónum. „Líkt og kemur fram í matinu eru forsendur þess afar jarðbundnar og byggja á traustum forsendum,“ segir í bréfi lögmanns Ice Lagoon til formanns bæjarráðs.

Þá segir enn fremur að forsvarsmenn Ice Lagoon telji að Hornafjörður beri fulla ábyrgð á tjóni félagsins þar sem forsvarsmenn sveitarfélagsins hafa komið fram af hálfu þess, í því skyni að valda félaginu tjóni.“  Sveitarfélaginu voru gefnir tíu dagar til að svara erindinu og ef engin viðbrögð bærust myndi fyrirtækið leita til dómstóla til að ná fram kröfum um skaðabætur.

Skemmst er frá því að segja að bæjarráð hafnaði kröfunni á fundi sínum í gær. „Bæjarráð harmar þær rakalausu ávirðingar sem fram koma í bréfinu á hendur kjörnum fulltrúum bæjarins á árunum 2010-2017 í þá veru að þeir hafi dregið taum tiltekinna aðila í ferðaþjónustu við Jökulsárlón og reynt að leggja stein í götu annarra. Þetta er alrangt,“ segir meðal annars í bókun bæjarráðs. 

Var bæjarstjóra falið að undirbúa svar við erindinu í samráði við lögmann sveitarfélagsins.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV