Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hópur Íslendinga til Verona á morgun

28.02.2020 - 17:47
Mynd með færslu
Flugstöðin á Keflavíkurflugvelli er meira og minna mannlaus þessa dagana. Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Framkvæmdastjóri VITA-ferða segir ekki ástæðu til að fella niður flug til Verona í fyrramálið þótt staðfest hafi verið að Íslendingar sem þar voru á ferð hafi smitast af COVID-19 veirunni. Nokkuð er um að fólk hafi afbókað ferðina.

Hópur Íslendinga heldur til Verona í fyrramálið með flugvél Icelandair. Hópurinn er á vegum VITA-ferða sem hefur boðið upp á skipulagðar skíðaferðir til Ítalíu og er þetta síðasta slíka ferðin.

Í dag var staðfest að einn Íslendingur hafi greinst með COVID-19 veiruna og hafði hann verið á skíðaferðalagi á Ítalíu. Hafði hann ferðast þangað á eigin vegum.

Þráinn Sigurðsson, framkvæmdastjóri VITA-ferða, segir í samtali við fréttastofu að ekki séu forsendur til að fella niður flugið til Verona á morgun. Skíðasvæðið sé utan skilgreinds áhættusvæðis og áhættumatið sé því óbreytt.

Spurður hvort það breyti einhverju þótt Íslendingurinn sem veiktist hafi verið utan skilgreinds áhættusvæðis segir Þráinn ómögulegt að segja til um hvort hann hafi komist í tæri við veiruna á skíðasvæðinu eða utan þess. Hann hafi aukin heldur ferðast á eigin vegum en ekki skipulagðri ferð með VITA.

Þráinn segir að eitthvað hafi verið um afbókanir í umrædda ferða á morgun en meginþorri þeirra sem eiga bókað far ætli að halda sínu striki.

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir áætlun félagsins verða óbreytta. Enginn af áfangastöðunum í leiðarkerfi Icelandair sé á skilgreindu áhættusvæði. Félagið sé í reglulegum samskiptum við heilbrigðisyfirvöld og vel sé fylgst með stöðunni.