Hópsýkingar ástæðan fyrir hertum aðgerðum

22.03.2020 - 12:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sóttvarnalæknir segir að ákveðið hafi verið að herða aðgerðir til að stemma stigu við útbreiðslu kórónaveirunnar eftir að hópsýkingar greindust víðsvegar um landið.

Tillaga sóttvarnalæknis um hertar aðgerðir verður tekin fyrir á ríkisstjórnarfundi klukkan fimm í dag. Fyrirmælin verða svo gefin út með auglýsingu í stjórnartíðindum og taka gildi á miðnætti annað kvöld.

Mun færri mega koma saman

Samkomubann sem komið var á síðastliðinn mánudag kvað á um að ekki fleiri en 100 manns mættu koma saman, og í minni hópum þyrftu að vera minnst tveir metrar á milli fólks. Undanskilin var ýmis starfsemi sem krafðist meiri nálægðar, svo sem nuddstofur og hárgreiðslustofur.

Samkvæmt því sem fram kom í máli Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns hjá Ríkislögreglustjóra, í gær gætu hertar reglur kveðið á um að ekki fleiri en tuttugu til þrjátíu megi koma saman. Þá verður skerpt á tveggja metra reglunni, sem útilokar starfsemi sem krefst meiri nándar starfsmanns og viðskiptavinar. Þá sagði Víðir líklegt að líkamsræktarstöðvum og sundlaugum verði lokað. Til að byrja með verður skólastarf ekki skert frekar en þegar hefur verið gert.

„Hefur tekist ágætlega að hægja á útbreiðslunni“

En hvers vegna er gripið til þessa aðgerða nú? „Í ljósi þess að við erum að fá litlar hópsýkingar hingað og þangað um landið og það er hæg aukning í þessu þá töldum við rétt að herða á þessum aðgerðum núna til þess að ná enn betri árangri í því að hægja á faraldrinum,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Þar vísar hann til dæmis í smit í Vestmannaeyjum og Húnaþingi Vestra. „En ég tel að það séu ýmis gögn sem sýna það að okkur hefur tekist ágætlega fram að þessu að hægja á útbreiðslunni,“ segir Þórólfur. 

Hann segir að þetta merki alls ekki að almannavarnir hafi misst tökin á faraldrinum. „Nei, alls ekki. Eins og við höfum sagt þá erum við með ýmis ráð uppi í erminni og það er óvarlegt að nota þau öll í einu, við þurfum líka að huga að innviðum samfélagsins,“ segir Þórólfur.

Gæti gert meira ógagn en gagn að loka skólum og leikskólum nú

Hann segir að töluvert mikið verði hert á aðgerðum frá því sem var tilkynnt fyrir rúmri viku. En hvers vegna var skólahald og dagvist barna ekki takmarkað frekar líka? „Í fyrsta lagi er þessi sjúkdómur þannig að hann er ekki mjög áberandi hjá börnum, þau fá lítil einkenni og eru þannig mjög líklega miklu minni smitberar heldur en fullorðið fólk. Þetta er öðruvísi en með aðrar öndunarfærasýkingar þar sem að takmörkun á skólahaldi spilar miklu meiri þýðingu,“ segir Þórólfur og bendir á að þetta sé í samræmi við ráðleggingar Imperial College of London.

„Í öðru lagi, að takmarka skólahald og leikskólahald, það myndi skapa mjög mikið vandamál fyrir heilbrigðisstéttir, og mikið vandamál við að manna sjúkrahús og heilbrigðisþjónustuna og alla framvarðasveit lögreglunnar og svo framvegis. Þannig að það myndi sennilega valda meiri skaða en gagni,“ segir Þórólfur.

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi