Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hópslagsmál í sumarbústöðum

08.12.2018 - 11:14
Mynd með færslu
 Mynd: Ríkislögreglustjóri
Allt tiltækt lið lögreglu á Egilsstöðum var kallað út í nótt vegna slagsmála í sumarbústaðahverfi. Lögreglan var með viðbúnað vegna menntaskólaballs á Egilsstöðum í gærkvöld en það fór vel fram. Þegar klukkuna vantaði 20 mínútur í fjögur í nótt var lögreglu hins vegar tilkynnt um hópslagsmál í sumarbústaðabyggðinni á Einarsstöðum, alls ótengd ballinu. 

„Þarna voru einhverjir tveir hópar í sitthvorum bústaðnum en eitthvert ósætti varð á milli þegar einhverjir fóru á milli bústaða, komu óboðnir í þann bústað,“ segir Hjalti Bergmar Axelsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Austurlandi. „Þeir rifust um það, sem endaði með slagsmálum og því að hnefarnir voru látnir tala. Þegar lögreglumennirnir voru að skakka leikinn þá var veist að þeim, ráðist að þeim með þeim hætti að endaði með því að tveir voru handteknir og færðir á lögreglustöð.“

Fjórir lögreglumenn voru á vakt í nótt og fóru þeir strax á vettvang. Þrír lögreglumenn á bakvakt voru kallaðir út þegar í ljós kom hversu mikil harkan var. Um tuttugu til þrjátíu manns voru í þvögu við sumarbústaðina en ekki slógust allir. Tveir voru handteknir í nótt, færðir á lögreglustöð og yfirheyrðir í morgun áður en þeim var sleppt. Viðbúið er að einhverjar kærur verði gefnar út, þótt enn hafi reyndar engin kæra um líkamsárás borist.

„Annar þeirra er grunaður um líkamsárás og ofbeldi gegn opinberum starfsmanni eða gagnvart lögreglumönnunum. Hinn er grunaður um ofbeldi gagnvart lögreglumönnunum og tálmun í handtöku, hann var að reyna að varna handtöku,“ segir Hjalti aðalvarðstjóri.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV