Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Höfum lokað á mestu erfiðleikana“

18.03.2017 - 14:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra segir að afnám haftanna hafi vakið mikla athygli og ánægju erlendis. Hann er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir því hversu mikil tíðindi aflétting þeirra er. Hækkun á lánshæfismati ríkisins í gær sé mikið fagnaðarefni.

„Ég er ekki viss um að það geri sér allir grein fyrir því hvað þetta séu mikil tíðindi, þetta afnám haftanna, að lánshæfismatsfyrirtæki sjái ástæðu til að gefa út sérstaka yfirlýsingu eða að hækka lánshæfismatið svona milli venjulegra funda þannig þetta hefur vakið mjög mikla athygli og ánægju erlendis. Líka gaman að sjá að rökstuðningurinn fyrir því er að menn telja að við séum með þessu búin að loka á mestu erfiðleikana og að það sé bjart framundan.“ sagði Benedikt í samtali við fréttastofu.

Benedikt segir að hækkun lánshæfismats gerir það að verkum að Ísland gæti fengið lán á miklu betri kjörum en áður fyrr. „Nú erum við reyndar ekki að taka neitt erlent lán en ef við ætluðum að gera það þá benda allar líkur til þess að við gætum kannski fengið það á innan við 1% vöxtum. Þetta mun hjálpa öðrum aðilum hérna, væntanlega bönkum til dæmis sem vilja fjármagna sig erlendis sem vilja horfa á hvert er lánshæfismat ríkisins.“

Er þá einhver möguleiki á endurfjármögnun lána?

„Við skoðum auðvitað alltaf svoleiðis hluti en við erum með þessi tvö stóru lán í gangi eins og er og það þarft alltaf að skoða hvernig er hægt að fá bestu kjör hverju sinni, það er stöðugt í gangi.“ segir Benedikt.

Nú sýnir sagan að það er ekki alltaf hægt að treysta þessum lánsmatsfyrirtækjum, er ástæða til að treysta þeim núna?

„Ja, það er alveg rétt, þau brugðust fyrir hrun og það var til þess að þau reyndar endurskoðuðu sínar aðferðir og við sáum það að lánshæfismat okkar hrapaði og við svo sem fundum það sjálf að ástandið var nú ekkert sérstaklega gott hérna. Nú finnst okkur flestum að ástandið sé miklu betra og þau taka undir það og það er fagnaðarefni.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV