Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Höfnun gæti haft áhrif á EES samstarf

27.03.2018 - 17:05
Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV
Ef Alþingi samþykkir ekki þriðju tilskipunina í orkumálum mun hún ekki taka gildi í Noregi. Norska þingið samþykkti hana í síðustu viku. Til að hún öðlist gildi þurfa öll EFTA-löndin þrjú að samþykkja. Utanríkisráðuneytið telur óljóst hver lagaleg og pólitísk áhrif yrðu ef Ísland samþykkir ekki. Það telur þó ekki ólíklegt að áhrif slíkrar ákvörðunar á EES-samstarfið yrðu meiri en aðeins þau að gildistöku yrði frestað til bráðabirgða.

Eftirlitsstofnunin ACER

Eins og fram hefur komið í Speglinum voru og eru talsverðar umræður um þessa tilskipun í Noregi. Hún snýst meðal annars um sameiginlega orku- eða eftirlitsstofnun, ACER,  sem þegar hefur tekið til starfa í Evrópusambandslöndunum. Hennar hlutverk er að hafa eftirlit með orkumarkaðinum í ESB sem er löngu orðinn sameiginlegur vegna þess að rafmagn og gas flæðir óhindrað yfir landamæri. Stofnunin getur, ef ágreiningur kemur upp, kveðið upp úrskurð sem viðkomandi lönd verða að lúta. Í hverju landi er stofnun sem á að fylgjast með að farið sé eftir regluverkinu og þessi stofnun er sjálfstæð og óháð stjórnvöldum. 

Alfarið í höndum heimamanna

Norðmenn eru þegar tengdir meginlandi Evrópu og hluti af evrópska orkumarkaðinum vegna lagningar sæstrengja. Þeir flytja rafmagn út og inn í landið. Andstæðingar tilskipunarinnar þar óttast að raforkuverð eigi eftir að hækka og að ACER geti tekið fram fyrir hendur stjórnvalda í sambandi við virkjunarframkvæmdir. Stjórnvöld segja að þessi ótti eigi ekki við rök að styðjast. Ákvörðunarvald sé algjörlega í höndum heimamanna og Noregur sé þegar á sameiginlegum raforkumarkaði Evrópu þar sem verð fari eftir framboði og eftirspurn. Það geti hækkað vegna fjölgunar sæstrengja en ákvörðun um að fjölga þeim sé alfarið norskra stjórnvalda. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson

Hvers vegna að ræða raforkumál úti í Brussel?

Þetta mál var rætt á Alþingi í síðustu viku þegar Þorsteinn Víglundsson, Viðreisn, spurði Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, um ályktun landsfundar flokksins gegn tilskipuninni. Hann spurði líka um hvað hefði verið gert til að aðlaga hana að íslenskum aðstæðum. Hann fékk kannski ekki svör við þessum spurningum. Bjarni sagði að um væri að ræða stórt grundvallarmál.

„Þegar um svona mál er að ræða á Alþingi síðasta orðið. Það er sá fyrirvari sem menn gera í Evrópusamvinnunni. Þeir hafa ekki heimild að stjórnskipunarlögum til að skuldbinda Ísland við samningaborðið út í Brussel án aðkomu Alþingis,“ sagði Bjarni Benediktsson.

Hann benti á að á yfirborðinu varðaði tilskipunin ekki íslenska raforkumarkaðinn með beinum hætti. Boðvald hinnar sameiginlegu stofnunar ACER myndi ekki virkjast fyrr en íslenski markaðurinn tengdist þeim evrópska.

„En engu að síður veltum því samt fyrir okkur. Mér finnst þetta mjög gott mál til að ræða innri markaðsmál í víðara samhengi. Veltum því aðeins fyrir okkur, hvað höfum við með það að gera á innri markaði Evrópu að vera að ræða úti í Brussel um raforkumál sem eru í einangruðu mengi á Íslandi. Hvað höfum við með það að gera að vera að ræða við önnur ríki Evrópusambandsins um raforkumál af eyjunni Íslandi?“ sagði Bjarni.

Andstaða á Alþingi

Þingsályktunartillaga utanríkisráðherra um þriðja orkupakkann eða þriðju tilskipunina í orkumálum verður væntanlega lögð fram á Alþingi eftir páska. Norðmenn samþykktu hana í síðustu viku og búist er við að Liechtenstein geri það fljótlega. Ekki er ágreiningur um málið  þar. Hins vegar virðist vera ágreiningur um tilskipunina hér heima. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, tveir stjórnarflokkar, hafa ályktað gegn henni. Í báðum tilfellum er mótmælt frekara framsali á yfirráðum ESB yfir íslenskum orkumarkaði. Búist er við að VG sé líka á móti tilskipuninni þó að flokkurinn hafi ekki formlega gefið upp sína afstöðu. Hugsanlegt er að fleiri flokkar séu á móti. Fjallað verður um málið á Landsþingi Miðflokksins sem haldið verður í næsta mánuði.

Höfnun mun hafa afleiðingar

En hvað gerist ef Alþingi hafnar þriðja orkupakkanum? Í fyrsta lagi eru engin fordæmi þess að eitt EFTA-landanna hafni eða neiti að samþykkja tilskipun. Sameiginlega EFTA-nefndin samþykkti í maí í fyrra að innleiða hana en með stjórnskipulegum fyrirvara. Tilskipunin öðlast ekki gildi fyrr en þjóðþing landanna hafa lagt blessun sína yfir hana. En málið er þó ekki svo einfalt því til að hún öðlist gildi þurfa öll löndin þrjú að samþykkja hana. Ef Alþingi segir nei tekur hún hvorki gildi í Noregi né Liechtenstein. 

Í svari frá utanríkisráðuneytinu til Spegilsins kemur fram að ef tilskipuninni verður hafnað hér kunni það líka að hafa áhrif á viðaukann um orkumál í heild sinni. Þriðji orkupakkinn er þriðja gerðin í orkumálum sem EFTA-löndin fjalla nú um. Í ljósi þess að engin fordæmi eru um að EFTA-ríki hafi hafnað tilskipun með þessum hætti sé óljóst hver lagaleg og pólitísk áhrif slíkrar ákvörðunar yrðu. EES-samningurinn kveður skýrt á um að ríkin þrjú verði að tala einum rómi. Ef tilskipun er ekki samþykkt frestast gildistaka hennar til bráðabirgða. Sameiginlega EES-nefndin skal þá leitast við að koma á samkomulagi um lausn sem aðilar geta sætt sig svo að draga megi frestunina til baka við fyrsta tækifæri. 

Í svari utanríkisráðuneytisins við spurningu Spegilsins um hvað gerist ef Ísland samþykkir ekki tilskipunina kemur líka fram: 

Ekki er þó ólíklegt að áhrif slíkrar ákvörðunar á EES-samstarfið yrðu meiri en eingöngu þau að framkvæmd viðkomandi viðauka við EES-samninginn yrði frestað til bráðabirgða. 

Það á eftir að koma í ljós hver afgreiðslan verður á Alþingi. Það er ekki víst að Norðmenn eða stjórnvöld þar verði kát ef Alþingi hafnar tilskipuninni og óvíst er hvernig ESB mun bregðast við. Hins vegar er nokkuð ljóst að andstæðingar tilskipunarinnar í Noregi munu fagna, því þeir bíða spenntir eftir því hverjar lyktir málsins verða hér.