Hnotskurn: Saga hrekkjavökunnar

halloween, pumpkins, smiling
 Mynd: cc

Hnotskurn: Saga hrekkjavökunnar

30.10.2019 - 09:30
Grikk eða gott, útskorin grasker og gífurlegt magn af sælgæti. Jú Hrekkjavakan nálgast víst. Sá siður að halda 31. Október hátíðlegan, eða í það minnsta helgina fyrir eða eftir hann, virðist vera orðinn sífelt vinsælli meðal Íslendinga. Börn og fullorðnir klæðast hræðilegum grímubúningum og betla jafnvel sælgæti ef vel liggur á þeim.

 

Fjallað var um sögu hrekkjavökunnar í nýjasta þætti Hnotskurnar. Auk þess var fjallað um nauðungarhjónabönd í Malaví. Þáttinn í heild sinni má hlusta á hér. En hann er líka aðgengilegur í öllum helstu hlaðvarpsveitum. 

 

 

 

 

 


Allir kannast auðvitað við hrekkjavökuna úr bandarískum bíómyndum og sjónvarpsþáttum og margir ganga svo langt að segja að öll þessi bévítans grasker, köngulóavefir og beinagrindur séu ekkert nema bandarískt bull sem borist hefur til landsins á síðustu árum í gegnum skemmtanaiðnaðinn og sé Íslandingum algjörlega óviðkomandi. Það er hins vegar ekki alveg rétt því hrekkjavaka á sér lengri sögu hér á landi heldur en við kannski gerum okkur grein fyrir.

Í mörgum evrópskum löndum áður fyrr, þar á meðal á Íslandi, var árinu einfaldlega skipt í sumar og vetur. Tíminn var talinn í vetrum og nóttum frekar en árum og dögum og það var veturinn sem kom fyrst. Mánaðarmótin október-nóvember mörkuðu þannig upphaf vetursins og þar með nýs árs. Á þessum tíma var kuldinn og myrkrið að taka við og dauðinn ríkti alls staðar, drungalegt ekki satt? Þetta upphaf vetrarins var talið einhverskonar millibilsástand þar sem menn gátu skynjað ýmislegt, drauga, álfa og gátu spáð í framtíðina, fá ekki allir þannig tilfinningu um mánaðarmótin október nóvember annars? 

Hrekkjavaka kallast auðvitað Halloween á ensku sem er annar ritháttur fyrir Hallowe’en. Það er svo aftur stytting á nafninu All Hallows Evening eða All Hallows Eve. Hátíðin er haldin 31. október ár hvert, daginn fyrir Allraheilagamessu sem haldin er 1. nóvember. Þegar kristni var tekin upp hér á landi og víðar bannaði kirkjan ekki þessar gömlu heiðnu hátíðir á haustin sem talað er um hér fyrir ofan heldur breytti þeim einfaldlega yfir í þessa kristnu hátíð, Allraheilagramessu.

Mynd með færslu
 Mynd:
Allraheilagramessa fagnar helgu mönnum og dýrlingum kirkjunnar

Allraheilagramessa er tileinkuð píslarvottum kirkjunar, eins konar sameiginlegur minningardagur fyrir þá fjölmörgu helgu menn og dýrlinga (e. saints) sem eiga ekki sinn eigin messudag. Í kaþólsku eru sem sagt fjölmargir dýrlingar sem eiga sinn eigin messudag eins og til dæmis María Mey og Allraheilagramessa er hugsuð fyrir restina af dýrlingunum sem eiga ekki sinn dag.  

Allraheilagramessa varð mjög snemma einn af helgustu messudögum íslensku kirkjunnar og var ekki afnumin í þeirri mynd fyrr en árið 1770, meira en 200 árum eftir að lúthersk kirkja náði hér völdum. Í kringum árið 1000 varð svo til önnur hátíð á þessu tímabili, Allrasálnamessa sem haldin er 2. nóvember, henni var ætlað að hjálpa sálum fátækra og biðja fyrir þeim. Svo þetta sé dregið saman þá var Allraheilagramessa helguð dýrlingum og trúarhetjum en á allrasálnamessu átti hugurinn frekar að vera hjá þeim sem maður þekkti persónulega og elskaði og voru fallnir frá. 

Þetta gætu einhverjir réttilega tengt við dag hinna dauðu sem haldinn er í Mexíkó 2. nóvember ár hvert með litríkum hauskúpum og hátíðarhöldum. Hann á vissulega rætur að rekja til Allrasálnamessu og kom til landsins með spænskum landvinningarmönnum, þó í aðeins myrkari mynd enn hafði á þeim tíma tíðkast í Evrópu en þar er svarti dauði talinn hafa spilað inní svartsýnina.

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Degi hinna dauðu fagnað.

En þá að hrekkjavökunni sjálfri, eins og við þekkjum hana í dag. Vetrarhátiðin sem var haldin hér á Íslandi fyrr á öldum var líka haldin í Skotlandi og á Írlandi þar sem Samhain var haldin, hún átti reyndar síðar eftir að fá heitið Hallowe’en. Hefð myndaðist þar að kertum væri komið fyrir í útskornum næpum, sem eru eiginlega rófur, og bálkestir voru kveiktir. Unglingar og fullorðnir fóru svo milli húsa í búningum og með grímur og gerðu öðrum grikk, gottið virðist hafa komið aðeins seinna inn í myndina.

Mynd með færslu
 Mynd: Pinterest
Klassísk útskorin rófa frá Írlandi.

 

Þegar Írar og Skotar fluttu svo til Ameríku á 19. öld flutti Halloween auðvitað með þeim. Í bandaríkjunum uxu hins vegar grasker sem voru miklu stærri og hentugri til að skera út í heldur en næpurnar og urðu þannig hið alþjóðlega tákn fyrir hrekkjavöku, þó upphaflegur tilgangur þeirra hefði verið að hræða burtu illa anda. Eins og unglingarnir gerðu í írlandi og Skotlandi ganga börn svo milli húsa til að safna nammi, þeir sem eru svo óheppnir að eiga ekkert til að gefa geta svo lennt í því að verða hrekktir af svekktum grikk-eða gotturum, sem gætu líka tekið illa í rúsínu og hnetumix. Þannig ef þú vilt sleppa við það að þurfa að hreinsa klósettpappír úr garðinum er betra að eiga súkkulaði á lager. 

Hrekkjavaka er þannig ekki jafn bandarísk og við gætum haldið þó að bíómyndir og sjónvarpsþættir geti sennilega upp að vissu marki útskýrt auknar vinsældir þessarar hátíðar hér á landi síðustu ár. Kannski ættum við bara að halda í fornar hefðir, fagna nýju ári í byrjun nóvember og skera út hræðileg andlit í rófur í staðinn. En er ekki bara miklu skemmtilegra að klæða sig í búning og sníkja nammi? Draugagangur og almenn vitleysa er semsagt ævaforn siður á þessu tiltekna tímabili og því ekki skrítið að við höfum tekið hrekkjavökunni fagnandi þegar hún bankaði aftur nokkrum öldum síðar.