Jæja-hópurinn spratt upp í þessu árferði, stóð fyrir einum fjölmennustu mótmælum Íslandssögunnar og fundaði svo með Ólafi Ragnari Grímssyni, þáverandi forseta. Algjör fítonkraftur á frumstigum. Þá var hópurinn hins vegar alls ekki nafnlaus og fyrir honum fór Sara Óskarsdóttir, en hún segist hafa skilið við hann í september 2018 og ætli sér að afskrá félagasamtökin.
Á fundi forseta var líka fleira fólk sem var þar sannarlega statt undir nafni og mynd en segist meira og minna vera hætt í hópnum. Eftir stendur að einhverjir, sem óttast að missa vinnuna ef stjórnmálaskoðanir þeirra verða opinberaðar, standa að baki Jæja síðunni á Facebook sem hátt í sautján þúsund manns líkar við. Og þeirra markmið er, samkvæmt fréttatilkynningunni, að standa með valdalausi fólki í baráttunni gegn hinum ríku. Lifi byltingin.
Áhrif nafnlausra á netinu
Jæja, nóg um Jæja. Ástæðan fyrir því að Hnotskurn fjallar um þetta mál að þessu sinni er sú að þetta er langt því frá í fyrsta sinn sem fjölmiðlar fjalla um nafnlausar síður á Facebook sem hafa þann eina tilgang að varpa fram skoðunum síðuhaldara sem enginn veit hver er. Til að byrja á byrjuninni, eins og við gerum alltaf hér, er vert að bakka aftur til ársins 2013 þegar á Facebook fóru að dúkka upp fjöldinn allur af Facebook síðum í nafni Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðismenn erlendis, Sameinaðir Sjálfstæðismenn, Stuðningsmenn Brynjars Níelssonar og svo lengi mætti telja.
Síðurnar höfðu það allar sameiginlegt að líta út fyrir að vera frekar líklega frá Sjálfstæðisflokknum en inn á milli læddust svo myndbirtingar og stöðuuppfærslur sem kæmu flokknum sérstaklega illa ef fólk tryði að efnið væri frá honum sjálfum. Ósviknir Sjálfstæðismenn fóru líka upp á afturlappirnar hver á fætur öðrum. Einar K. Guðfinnsson þingmaður flokksins sagði alla sjá að þessi skrif væru ekki á vegum Sjálfstæðismanna heldur fjandmanna þeirra og til þess eins skrifuð að koma illu til leiðar og koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem núna er utanríkisráðherra, sagði jafnframt að málið væri fyrir neðan allar hellur.
En á endanum fóru Sjálfstæðismenn að benda á Jóhann Pál Jóhannsson, blaðamann, og saka hann um að bera ábyrgð á síðunum. Jóhann Páll hafnaði tengslunum alfarið, sagði gróflega vegið að starfsheiðri sínum en að sig grunaði að misskilningurinn væri uppi því hann hefði ásamt vinum sínum vissulega haldið úti grínsíðunni Sturl Ung – ungliðahreyfingu Sturlu Jónssonar. Það væri hins vegar af og frá að hann stæði að baki þessum vandlega dulbúnu óhróðurssíðum. Málið lognaðist út af og lítið bar á umræðu um nafnlausar síður þar til þremur árum síðar, þegar Alþingiskosningar vofðu yfir eftir stjórnarslit í kjölfar Panamaskjalanna.