Hnotskurn: Nafnlaus áróður og falsfréttir

Mynd með færslu
 Mynd: rúv/facebook

Hnotskurn: Nafnlaus áróður og falsfréttir

23.10.2019 - 12:24
Síðan 2013 hafa nafnlausar síður á Facebook reynt að hafa áhrif á kosningar hér á landi með einum eða öðrum hætti. Virkni þeirra og skipulag jókst þó mjög fyrir Alþingiskosningarnar 2013. Fjallað var um þetta í Hnotskurn þætti vikunnar:

Hlustaðu á þáttinn hér

Fyrir helgi birti Vísir frétt með fyrirsögninni Kynningarstjóri gengst við Facebook-áróðri. Í fréttinni þótti ljóstrað upp um tengsl Guðmundar Harðar Guðmundssonar, kynningarstjóra hjá Háskóla Íslands og fyrrverandi formanni Landverndar, við Facebook síðuna Jæja sem undanfarið hefur farið mikinn á samfélagsmiðlinum í gagnrýni sinni á ríkisstjórnina, kapítalisma og svo framvegis og svo framvegis.

Kveikjan að rannsókn blaðamanns Vísis á því hver stæði að baki Jæja hópnum er sú að fyrir skömmu birti  Jæja hópurinn, ef við gefum okkur að að baki síðunni sé yfir höfuð hópur, stillimynd úr kvikmyndinni Jókerinn ásamt textanum Útrýmum hinum ríku. Og hér kemur stutt spilliviðvörun. 

Í hinni nýfrumsýndu kvikmynd er Jókerinn, leikinn af Joaquin Phoenix, upphafsmaður óeirða sem leiða til morðs á auðkýfingi. Og mynd úr því atriði með sögninni að útrýma í viðtengingarhætti nútíðar kveikti ákveðin hugrenningartengsl sem ansi margir voru ekki alveg til í að kvitta upp á

 Það er kannski eilítið langt seilst að segja Guðmund Hörð hafa gengist við síðunni. Hann staðfestir vissulega við blaðamann Vísis að hafa réttindi til að setja inn efni á síðuna en segir að baki Jæja á Facebook sé óformlegur hópur ólíks fólks og ekkert að baki birtingum á síðunni sé skipulagt. Blaðamaður Vísis hefur enda spjallað við einhvern, sem að baki síðunni stendur og sá vill ekki gefa sig upp, og Guðmundur Hörður þvertekur fyrir að sé hann. Guðmundur vill þó ekki segja hverjir aðrir en hann hafa stjórnendaréttindi á Jæja. Fréttatilkynning frá hópnum barst síðan fyrir rúmri viku en í henni er áréttað að hópurinn vilji starfa nafnlaust og þar segir meðal annars:

Það eru margar ástæður fyrir því að Jæja kýs að skrifa nafnlaust. Við búum í litlu landi þar sem allir þekkja alla og atvinnumöguleikar fólks geta dregist verulega saman ef stjórnmálaskoðanir þeirra eru opinberar. Þetta þekkja allir. Þar fyrir utan er einfaldlega góð og gild hefð fyrir því að skrifa nafnlaust um samfélagið. Það ættu blaðamenn að vita vel því nærri allir fjölmiðlar eru með slíka dálka. DV, Hringbraut, Mogginn og Viðskiptablaðið eru miðlar þar sem nafnlausir höfundar skrifa, oftast til að verja valdið í samfélaginu. Blaðamenn á þessum miðlum skrifa fréttir vitandi að fjölmiðilinn þeirra mun standa með þeim. Við sem höldum úti Jæja höfum ekkert slíkt skjól og þessvegna kjósum við að skrifa nafnlaust

Nafnleysið nýtt af nálinni

Þetta er hins vegar aðeins flóknara með Jæja hópinn. Hópurinn tók til starfa árið 2016 og var þá skráður sem félagasamtök. Markmið hópsins var fyrst og fremst að skipuleggja og koma að mótmælum gegn þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og og Framsóknarflokks en þegar hópurinn var stofnaður voru eignir íslenskra stjórnmálamanna á aflandsfélögum í skattaskjólum fullkomlega það sem allt snerist um. Wintris, Falson &Co og Dooley Securities. Þið munið þetta.

Mynd með færslu
 Mynd: Sueddeutsche.de - Skjáskot
Umfjöllun erlendra miðla um umfang Íslands í Panamaskjölunum var mikil

Jæja-hópurinn spratt upp í þessu árferði, stóð fyrir einum fjölmennustu mótmælum Íslandssögunnar og fundaði svo með Ólafi Ragnari Grímssyni, þáverandi forseta. Algjör fítonkraftur á frumstigum. Þá var hópurinn hins vegar alls ekki nafnlaus og fyrir honum fór Sara Óskarsdóttir, en hún segist hafa skilið við hann í september 2018 og ætli sér að afskrá félagasamtökin.

Á fundi forseta var líka fleira fólk sem var þar sannarlega statt undir nafni og mynd en segist meira og minna vera hætt í hópnum. Eftir stendur að einhverjir, sem óttast að missa vinnuna ef stjórnmálaskoðanir þeirra verða opinberaðar, standa að baki Jæja síðunni á Facebook sem hátt í sautján þúsund manns líkar við. Og þeirra markmið er, samkvæmt fréttatilkynningunni, að standa með valdalausi fólki í baráttunni gegn hinum ríku. Lifi byltingin. 

Áhrif nafnlausra á netinu

Jæja, nóg um Jæja. Ástæðan fyrir því að Hnotskurn fjallar um þetta mál að þessu sinni er sú að þetta er langt því frá í fyrsta sinn sem fjölmiðlar fjalla um nafnlausar síður á Facebook sem hafa þann eina tilgang að varpa fram skoðunum síðuhaldara sem enginn veit hver er.  Til að byrja á byrjuninni, eins og við gerum alltaf hér, er vert að bakka aftur til ársins 2013 þegar á Facebook fóru að dúkka upp fjöldinn allur af Facebook síðum í nafni Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðismenn erlendis, Sameinaðir Sjálfstæðismenn, Stuðningsmenn Brynjars Níelssonar og svo lengi mætti telja.

Síðurnar höfðu það allar sameiginlegt að líta út fyrir að vera frekar líklega frá Sjálfstæðisflokknum en inn á milli læddust svo myndbirtingar og stöðuuppfærslur sem kæmu flokknum sérstaklega illa ef fólk tryði að efnið væri frá honum sjálfum. Ósviknir Sjálfstæðismenn fóru líka upp á afturlappirnar hver á fætur öðrum. Einar K. Guðfinnsson þingmaður flokksins sagði alla sjá að þessi skrif væru ekki á vegum Sjálfstæðismanna heldur fjandmanna þeirra og til þess eins skrifuð að koma illu til leiðar og koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem núna er utanríkisráðherra, sagði jafnframt að málið væri fyrir neðan allar hellur.

En á endanum fóru Sjálfstæðismenn að benda á Jóhann Pál Jóhannsson, blaðamann, og saka hann um að bera ábyrgð á síðunum. Jóhann Páll hafnaði tengslunum alfarið, sagði gróflega vegið að starfsheiðri sínum en að sig grunaði að misskilningurinn væri uppi því hann hefði ásamt vinum sínum vissulega haldið úti grínsíðunni Sturl Ung – ungliðahreyfingu Sturlu Jónssonar. Það væri hins vegar af og frá að hann stæði að baki þessum vandlega dulbúnu óhróðurssíðum. Málið lognaðist út af og lítið bar á umræðu um nafnlausar síður þar til þremur árum síðar, þegar Alþingiskosningar vofðu yfir eftir stjórnarslit í kjölfar Panamaskjalanna.

Fyrir Alþingiskosningarnar 2016 fóru að spretta upp nokkrar síður á Facebook sem framleiddu efni, sumt sem nokkuð mikil vinna var lögð í, og höfðu þann eina tilgang að bera út ákveðinn boðskap eða skoðun – oftar en ekki sem beindist gegn ákveðnum stjórnmálaflokkum. Neikvæð kosningabarátta er ekki óþekkt hér á landi frekar en víðast hvar annars staðar en kom þarna fram kannski í fyrsta sinn með svo skipulögðum hætti. Síðan Kosningar 2016 var sérstaklega áberandi og beindi spjótum sínum nær einvörðungu að stjórnarandstöðuflokkunum, VG og Pírötum, sem voru á góðri siglingu í skoðanakönnunum vegna krísunnar sem var uppi hjá stjórnarflokkunum.

Myndband frá Kosningar 2016: 

Á síðunni Betra skilið fór aftur á móti öll athyglin í stjórnarflokkana eins og nafn síðunnar ber með sér en þar þótti síðuhaldara þjóðin eiga „betra skilið“ en þáverandi ríkisstjórn. Þegar blaðamaður mbl.is hafði samband við Kosningar 2016 sagðist síðuhaldari vera búinn að fá of margar andlátsóskir til að vilja gefa það upp hver hann væri. Viðkomandi leynimaður hafnaði því þó alfarið að vera á vegum einhvers stjórnmálaflokks.

Aðstandandi Betra skilið sagði aftur á móti að ástæðan að baki stofnun þeirrar síðu væri í raun að vera mótvægi við Kosningar 2016. Markmiðið væri að „jafna leikinn“

Síðurnar lögðust allar í dvala þegar snarpri kosningabaráttunni var lokið en blundurinn var stuttur enda var aftur boðað til kosninga ári síðar og áróðursvélarnar voru smurðar að nýju.

Ekkert hobbý 

Síðan Kosningar 2016 gekk í endurnýjun lífdaga og fékk nafnið Kosningar 2017 en hún hefur verið langmest áberandi af þessum nafnlausu síðum og ljóst að þar liggja töluverðir fjármunir að baki. Virkni hennar og nokkuð fagmannlega unnið myndefnið bendir til þess að fyrir kosningar hafi ekki einhver fullvinnandi einstaklingur sinnt henni sem litlu áhugamáli heldur varið öllum sínum vökutíma í hana. Facebook síðan keypti hiklaust auglýsingar á Facebook og Youtube til að koma skilaboðum sínum á framfæri og eins og áður var stefnan tekin gegn vinstriflokkunum.

Facebook-síðurnar Kjósa og Kosningavaktin lögðust á móti í áróður gegn Sjálfstæðisflokknum og Bjarna Benediktssyni formanni flokksins. Þar var sömuleiðis mikil vinna lögð í myndbönd en síðuhaldarar gagnrýndu það sem þeir kölluðu nafnlausar áróðurssíður og sögðu að það væri alls ekki hægt að gagnrýna þá fyrir það sama. Ástæðan fyrir nafnleysi þeirra væri ótti við ofsóknir af hálfu valdafólks, stjórnmálaflokka og áróðursvéla.

Eftir Alþingiskosningarnar 2017 lagðist Kosningar 2017 síðan þó ekki í dvala og hélt boðun sinni áfram í kjaradeilunum síðastliðið vor. Þá beindust auglýsingar síðunnar gegn forsvarsmönnum verkalýðsfélaganna en í einni þeirra birtust Drífa Snædal, formaður ASÍ, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar sem strengjabrúður Gunnars Smára Egilssonar, stofnanda Sósíalistaflokksins sem sagður var guðfaðirinn. 

Breytt landslag fordæmt

Stjórnmálamenn hafa sumir hverjir brugðist harkalega við síðunum. Framkvæmdastjórar allra flokka sem eiga sæti í nefnd um fjármálstjórnmálaflokka lýstu í apríl 2018 yfir andúð á því sem nefndin kallaði „undirróðursstarfsemi“.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, óskaði svo eftir og fékk í gegn að forsætisráðuneytið ynni skýrslu um hvort hægt væri að greina „aðkomu og hlutdeild hulduaðila“ í kosningunum 2016 og 2017, og hvort hægt væri að koma í veg fyrir slíkar nafnlausar auglýsingar.

Skýrslan var svo birt á sumarmánuðum 2018 og sagði að útbreiðsla rangra og misvísandi upplýsinga væri áskorun fyrir öll ríki sem kenna sig við lýðræði og opna stjórnhætti. Í inngangi skýrslunnar sagði jafnframt að þróun internetsins hefði gert auðveldara að breiða út upplýsingar sem hefðu þann tilgang að blekkja og grafa undan lýðræðinu. Aftur á móti væri tjáningarfrelsið vel varið í stjórnarskrá og frelsið til að miðla upplýsingum næði líka til þess að fólk hefði frelsi til að fara með rangt mál. Þó væri heimilt að setja tjáningarfrelsinu skorður í þágu öryggis ríkisins. Aðgerðir til að stemma stigu við undirróðursstarfsemi sem væri eitthvað í líkingu við hernaðaraðgerðir gæti til dæmis verið góð ástæða til að setja slíkar skorður.

Það er bara spurning hvort það sé ekki ansi langt seilst að kalla neikvæða kosningabaráttu nafnlausra Facebook síðna hernaðaraðgerðir.

Alþjóðlegt vandamál

Já Facebook síður nafnlausra einstaklinga eru komnar til umræðu í æðstu stigum þjóðfélagsins, þar á meðal þjóðaröryggisráði Íslands. Eitthvað sem þeir sem standa þeim að baki bjuggust kannski ekki við þegar fyrsta statusnum var póstað.

En málið er auðvitað miklu stærra en það. Í Bandaríkjunum hefur umræðan um nafnlausan áróður á samfélagsmiðlum verið mjög virk eftir forsetakosningar þar í landi og aðkomu Rússa að framleiðslu áróðursefnis gegn forsetaframbjóðendum. Einnig eftir að í ljós kom að fyrirtækið Cambridga Analytica notfærði sér persónuupplýsingar sem Facebook bjó yfir til þess að ýta óákveðnum kjósendum í átt að Donald Trump.

Öryggisstjóri Facebook, Alex Stamos, sagði starfi sínu meira að segja lausu vegna ágreinings innan fyrirtækisins því hann vildi taka öðruvísi á áróðri og falsfréttum en aðrir stjórnendur Facebook. Giles Portman, yfirmaður hjá utanríkisþjónustu Evrópusambandsins, segir að skipulagðir hópar dreifi falsfréttum á samfélagsmiðlum til að grafa undan vestrænu lýðræði.

Mýmörg dæmi eru um að auglýsingatól Facebook séu svo notuð til að skilaboð vefsíðnanna beinist að sérstökum hópum umfram aðra. Þannig eru skilaboð frá síðunum sérhönnuð, eða jafnvel mötuð, ofan í hópa fólks sem markaðsrannsóknir benda til þess að hafi alla jafna ákveðnar skoðanir eða lífsviðhorf. Hver og einn kjósandi fær þannig kannski mjög ólíka mynd af sínum frambjóðendum eða jafnvel af gagnrýninni á frambjóðendurna og neikvæð kosningabarátta er sniðin að einstaklingum frekar en að vera almenns eðlis.

Alþjóðlegar rannsóknir benda til þess að 86 prósent netnotenda hafi látið blekkjast af falsfréttum, sem oftast var dreift í gegnum Facebook. Og þá er það stóra spurningin sem þú þarft að spyrja þig. Hefur áróður á Facebook meðvitað eða ómeðvitað haft áhrif á það hvernig þú kýst?

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Sektir við nafnlausum kosningaauglýsingum

Erlent

Lokuðu 650 áróðurssíðum á Facebook

Stjórnmál

Nafnlaus kosningaáróður ekki ólöglegur