Hnotskurn: Móðir #metoo langlífust á skjánum

Mynd með færslu
 Mynd: NBC

Hnotskurn: Móðir #metoo langlífust á skjánum

09.10.2019 - 11:29
Spennuþáttaröðin Law & Order: Special Victims Unit varð á dögunum langlífasta leikna þáttaröð á besta tíma í bandarísku sjónvarpi. Í Hnotskurn þætti vikunnar er fjallað um áhrif þáttanna á umræðuna í bandarísku samfélagi og raunveruleg kynferðisbrot sem leikin hafa verið eftir í þáttunum:

Hlusta á þáttinn hér

Sakamálaþátturinn Law&Order Special Victims Unit komst í sögubækurnar í lok september þegar tuttugasta og fyrsta þáttaröðin fór í loftið. Þar með varð þátturinn langlífasti leikni sjónvarpsþáttur sem sýndur hefur verið á besta tíma í amerísku sjónvarpi. Aðeins Simpsons fjölskyldan hefur verið lengur á skjánum en eins og allir vita eru þættirnir um hana teiknaðir. Engin hætta er á að aðalpersóna Simpsons, sjálfur Homer, kulni í starfi.

Mynd með færslu
 Mynd: The Simpsons
Simpsons fjölskyldan er samheldin og jafnframt ánægð í vinnunni

Special Victims unit tóku þar með fram úr móðurþætti sínum, Law and order, en þeir hættu sýningum árið 2010 eftir tuttugu þáttaraðir. Næstu leiknu þáttaraðir sem enn eru í gangi eiga ansi langt í að ná Special victims unit en lögguþættirnir NCIS eru á sinni sautjándu seríu núna og læknadramað Grey‘s anatomy á sextándu. Law and Order SVU trónir því algjörlega á toppnum þegar kemur að langlífi leikinna þáttaraða og það er engan bilbug að finna á handritshöfundum og leikurum þáttanna. Þvert á móti er blússandi stemning.

Nú kannt þú að setja spurningamerki við mikilvægi þátta sem á yfirborðinu eru amerískt löggu- og lögfræðidrama. Staðreyndin er engu að síður sú að þættirnir eiga sér bæði merkilega sögu en gegna líka ótvíræðu hlutverki í breyttri umræðu um kynferðisbrot og stöðu þolenda. Dick Wolf, framleiðandi og aðalsmiður þáttanna, gengur svo langt að kalla Marisku Hargitay, aðalleikkonu þáttanna, sjálfa móður #metoo  hreyfingarinnar

„Hún hefur klárlega orðið fyrir áhrifum af hlutverki sínu sem rannsóknarlögreglumaðurinn Benson, og hún hefur snúið þeim áhrifum upp í markmið sitt að stuðla að breytingum“ 

Stór orð sem við skulum rýna aðeins betur í.

Enginn óhulltur 

Þættirnir fjalla um afmarkaða deild innan lögreglunnar í New York sem rannsakar aðeins kynferðisbrot og brot gegn sérstaklega viðkvæmum þolendum, öll brot gegn börnum og svo framvegis. Þolendurnir koma frá öllum þjóðfélagsstigum, forríkar yfirstéttar konur og bláfátækt fólk á götum New York borgar sem öll eiga það sameiginlegt að hafa orðið fyrir kynferðisbrotum eða grófum ofbeldisbrotum.

Gerendurnir geta verið virðulegir menn sem njóta virðingar í samfélaginu, jafnvel frægir menn, popparar og stjórnmálamenn, eða þeir eru foreldrar barna í viðkvæmri stöðu, fátækir sjálfir með langa sögu ofbeldis í sinni eigin æsku. Þættirnir spyrja ekki um kyn, aldur, kynþátt eða stétt gerenda og þolenda. Það hefur sannarlega öll flóran fengið pláss í undanförnum 460 þáttum og vinsældir þáttanna byggjast vafalítið á því að breiður áhorfendahópurinn  getur séð sjálfan sig í litríku persónuúrvalinu

En þetta vita nú allir. Það sem færri vita er að í 20 ár hafa þættirnir oftar en ekki fjallað um mál sem byggð eru á sönnum atburðum. Í þáttunum hafa komið fyrir nýleg mál sem fyllt hafa fyrirsagnir dagblaðanna og áhorfendur hafa skömmu síðar getað séð ljóslifandi fyrir sér í þáttunum. Dæmi um sakamál sem hafa notið óskiptrar athygli almennings og skömmu síðar öðlast nýtt líf á skjánum eru dómsmálið gegn Dominique Strauss Kahn.

epa03761041 Former International Monetary Fund (IMF) Chief Dominique Strauss-Kahn attends a senate commission inquiry on the role of banks in tax evasion, in Paris, France, 26 June 2013.  EPA/IAN LANGSDON
 Mynd: EPA

Strauss Kahn, sem þá var framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, var í maí árið 2011 handtekinn og ákærður fyrir tilraun til nauðgunar á gíneskri þernu á hótelinu sínu og fyrir að neyða hana til munnmaka. Það sama ár, í september, hófst þrettánda þáttaröð Law & Order special victims unit á þætti um málið. Fjórum mánuðum og viku, upp á dag, síðan Strauss-Kahn var handtekinn og einungis þremur dögum eftir að hann fór í viðtal í frönsku sjónvarpi, meira og minna laus allra mála, og sagði að kynferðislegt samneyti hans við þernuna hefði verið mistök og siðferðislegt klúður, en ekkert glæpsamlegt hefði átt sér stað.

Framleiðendur þáttanna hafa beint sviðsljósinu að fleiri þekktum og sönnum málum. Fyrsti þáttur nýjustu þáttaraðarinnar er beinlínis byggður á máli kvikmyndaframleiðandans Harveys Weinsteins, sem var kveikjan að #metoo hreyfingunni.

Í lok síðustu þáttaraðar blönduðu framleiðendur saman vopnaða innbrotinu og árásinni á Kim Kardashian, sem og því heimilisofbeldi sem popparinn Chris Brown hefur gerst sekur um.

Mál dómarans Bretts Kavanaugh kom einnig fram í síðustu þáttaröð  sem og skelfileg stefna bandarískra stjórnvalda í að aðskilja börn og foreldra sem leita hælis í Bandaríkjunum. Í nítjándu seríu komu öfgahægrimenn og uppþotin í Charlottesville í Bandaríkjunum við sögu. Donald Trump fékk að kenna á því í seríu 18, tveimur mánuðum eftir að hann var kjörinn forseti Bandaríkjanna og svo mætti lengi áfram telja.

Terry Richardson, Bill Cosby, James Franco, Woody Allen, Roman Polanski, Whoopi Goldberg, Jimmy Savile og  Arnold Schwarzenegger er allt frægt fólk sem komið hefur við sögu með einum eða öðrum hætti í þáttunum. Og ekki sem aukaleikarar. 

Og síðast ber að nefna Jeffrey Epstein, milljónamæringinn sem grunaður er eða var um mansal og nauðganir á unglingsstúlkum, og jafnframt grunaður um að vera milliliður fyrir hátt setta vini sína eins og Andrew prins og Donald Trump til að brjóta á ólögráða stúlkum. Langur armur laganna náði honum í Law & Order SVU árið 2011. Jeffrey Epstein fyrirfór sér, já eða lést að minnsta kosti, í fangaklefa í ágúst síðastliðnum þegar málið hafði loksins komist í hámæli á ný. Sé mið tekið af sögu þáttanna er ekki ólíklegt að Epstein-málið komi aftur við sögu í nýjustu þáttaröðinni.

Kvenkyns ofurhetja í engri skikkju

Það er því ekki að ástæðulausu sem þættirnir þykja hafa mikilvæga rödd í stórbreyttri umræðu um kynferðisbrot á vesturlöndum. Síðan árið 1999 hafa þolendur skilað skömminni á skjánum. Hetja þáttanna er klárlega Olivia Benson, rannsóknarlögreglan sem á tuttugu árum hefur unnið sig upp innan deildarinnar og farið frá því að vera óbreytt lögga í að vera yfirmaður kynferðisbrotadeildarinnar.

Hún hefur verið nánast óskeikul í gegnum sinn feril en þó ekki alveg því þættirnir spila reglulega inn á vantrú lögreglumanna á þolendum, mistök sem gerð eru við rannsóknir og aðgerðir lögreglu sem gera illt verra í mjög viðkvæmum málum. Stórhættulegir og siðblindir gerendur hafa sloppið, rænt þolendum sínum og brotið á þeim á ný, jafnvel myrt rétt undir nefi lögreglunnar. Olivia Benson sjálf hefur líka ítrekað lent í stórhættulegum aðstæðum og jafnvel mannráni með rugluðum glæpamönnum. Allt kryddið í kryddskúffunni hefur verið notað til að búa til almennilegt löggudrama sem heldur áhorfandanum spenntum við  skjáinn.

Mynd með færslu
 Mynd: NBC

Víkur þá sögunni að því lífi sem þættirnir hafa öðlast utan skjásins. Mariska Hargitay, leikkonan að baki Oliviu Benson, hefur nefnilega helgað líf sitt baráttunni fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Hún hefur hlotið þjálfun sem alvöru ráðgjafi fyrir þolendur kynferðisbrota og árið 2004 stofnaði hún the Joyful Heart foundation, sjóð sem hefur það eina markmið að hjálpa þolendum kynferðisbrota, heimilisofbeldis og barnaníðs.

Á nýliðinni Emmy verðlaunahátíð tók hún á móti verðlaunum fyrir heimildamyndina I am Evidence, sem útleggst á íslensku Ég er sönnunargagn en myndina framleiddi hún með HBO og rannsakaði í henni hvernig bandarísk lögregluyfirvöld taka á rannsóknum kynferðisbrota. Já og bregðast oft á tíðum.

Í viðtali við New York Times á dögunum segir Hargitay að þættirnir hafi breytt henni úr leikkonu í aktivista. Hún hafi aldrei nokkurn tímann verið jafn helguð baráttunni fyrir aukið réttlæti fyrir þolendur. Og þættirnir hafa sannarlega haft jákvæð áhrif fyrir suma þolendur. Í bókinni We believe you: Survivors of Campus Sexual Assault Speak Out segir einn þolandi að Olivia Benson hafi mölbrotið skömmina og sjálfsefann sem hún hafði verið haldin eftir kynferðisbrot á heimavist háskóla síns árum áður.

Aðrir leikarar þáttanna finna sannarlega fyrir mikilvægi hans líka. Rapparinn Ice-T hefur verið í þáttunum frá upphafi og segist fyrst um sinn ekki hafa gert sér grein fyrir því að þættirnir hefðu annað gildi en skemmtanagildi. Það var ekki fyrr en þolendur fóru að tala við hann í miklum mæli og þakka fyrir það sem þættirnir hefðu gert fyrir þá sem hann sá að vinnan við þættina náði út fyrir starf hefðbundins leikara.

Frá blætum til brjóstvits

Þættirnir hafa líka þróast síðan þeir hófu göngu sína. Stundum í takt við tíðarandann, og stundum verið nokkrum skrefum á undan. Í sautjándu seríu dvaldi lögreglumaðurinn Carisi í dulargervi í athvarfi fyrir heimilislausa karlmenn sem eiga það sameiginlegt að hafa verið dæmdir fyrir kynferðisbrot og setið af sér sinn dóm.

Carisi, sem hingað til hefur verið ung lögga með töluvert svarthvíta sýn á heiminn öðlaðist þar nýja sýn á gerendur og sagði: "I went into that place, I hated those guys. I couldn't even stand to be around them, But after a few days, they just turned into people." Eða:

Ég fór þangað, ég hataði þessa gæja. Ég þoldi ekki að vera nálægt þeim en eftir nokkra daga urðu þeir bara fólk.

Og þar með lagði Law and Order special victims unit sitt lóð á vogarskálar ákveðinnar umræðu sem talar um að afskrímslavæða gerendur.

Svo var það í þrettándu seríu sem þættirnir tóku dramatíska beygju með nýjum höfundum. Þeir höfðu áður fjallað um skringilega glæpi, jafnvel ótrúverðuga og oftar en ekki höfðað til myrkustu kennda mannsins en árið 2011 var tekin meðvituð ákvörðun um að fjalla í ríkari mæli um hvaða áhrif kynferðisbrotin hefðu á tilfinningalíf þolenda og rannsóknir þeirra á líðan lögreglumanna. Blætin viku fyrir mannlegri nálgun sem er rannsökuð ofan í kjölinn af handritshöfundum til að skila þáttum sem geta bæði verið raunsæir og spennandi í senn.

Og það er erfitt að hunsa langlífustu leiknu þáttaröð bandarísks sjónvarps og hvaða áhrif þeir hafa á samfélagið. Í því ljósi ákvað Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna í tíð Baracks Obama, að þiggja agnarsmátt aukahlutverk  í þáttunum til þess að varpa ljósi á sérstakt baráttumál sitt – nefnilega þau tvöhundruð þúsund sýni, eða sönnunargögn, sem safnað hefur verið saman á sjúkrahúsum þegar þolendur leita þangað eftir nauðgun og liggja órannsökuð inni á lögreglustöðvum Bandaríkjanna. Já og þar með baráttunni fyrir þolendurna, tvö hundruð þúsund, sem lögreglan hefur enga tilraun gert til að veita réttlæti. Kannski meira um það síðar.