Hnotskurn: Barnabrúðkaupum fjölgar í hamförum

Mynd með færslu
 Mynd: un women

Hnotskurn: Barnabrúðkaupum fjölgar í hamförum

29.10.2019 - 10:32
Önnur hver stúlka í Malaví er gefin í hjónaband fyrir átján ára aldur. Fólksfjölgun þar er með því mesta sem gerist í heiminum og þungunarrof er óheimilt. Fjallað er um málið í Hnotskurn í dag:

Hlustaðu á þáttinn hér

Við í jafnréttisparadísinni Íslandi horfum með hryllingi til veruleika kvennanna í sjónvarpsþáttunum Handmaids tale. Saga þernunnar er þyrnum stráð stríð gegn konum -  lífi þeirra og líkama og í annarri þáttaröð fá áhorfendur að skyggnast inn í hve marglaga ofbeldið er þegar barnabrúðurinn Eden kemur inn á heimili Waterford hjónanna. 

Mynd með færslu
 Mynd: Hulu

Hún er alin upp í Gilead, þekkir sinn stað sem ung stúlka og finnst eðlilegt að vera fimmtán ára gefin miklu eldri manni. Það eykur á þjáningu hennar að geta ekki uppfyllt skyldur sínar, sem er að eignast börn þó barnung sé sjálf. Þegar ungæðislegir hormónarnir, æ þið vitið - ástin , bankar upp að dyrum hjá Eden og ungum varðmanni á heimilinu er úti um hana. Í bókstaflegri merkingu. 

Internet vesturlanda fer á hliðina þegar fyrirsætan og viðskiptamógúllinn Kylie Jenner heldur Handmaid's tale þemapartý þar sem skvísurnar klæða sig upp í rauðan búning þernunnar en að þessu sinni með dassi af sexý.

Þetta sama vestræna internet er vel mannað af alveg hóflega meðvituðu fólki sem notar millumerkið woke þegar því blöskrar eitthvað enn einn daginn, tekur þátt í twitter storminum þegar frægðarmennin misstíga sig og reiðist mest yfir því þegar hugmyndir annarra standast ekki tímans tönn. En við lifum í internetbúblu, bæði á samfélagsmiðlum og fréttamiðlum, og á meðan þemapartý Kylie Jenner er upphafið að alþjóðlegum twitter stormi gleymast hinar raunverulegu Eden algjörlega. Það minnist enginn á að örlög hennar og nauðungarhjónabandsins við Nick, í þáttunum um  Handmaid's tale, eru jafnvel ívið skárri en örlög þeirra stúlkna sem eru þvingaðar í hjónabönd á hverjum degi í heiminum. Eden var heppin. Líkast til heppnari en þær milljónir stúlkna sem þvingaðar eru í hjónabönd á hverju einasta ári. 

Stóru slagirnir heima og að heiman

Í tilefni þess að á föstudag fer fram Landssöfnun UN Women á RÚV um skaðlegar afleiðingar þvingaðra barnahjónabanda í Malaví, fjallar Hnotskurn að þessu sinni um staðreyndirnar sem uppi eru um stöðu stúlkna í heiminum. Tekið skal fram að allar tölulegar upplýsingar sem hér fylgja á eftir eru komnar frá UN Women, stofnun Sameinuðu þjóðanna til að auka kynjajafnrétti í heiminum. 

Á Íslandi erum við í þeirri forréttindastöðu að geta leyft jafnréttisbaráttunni að snúast um orðalag, við getum leyft okkur að taka heila viku í umræðu um á hvaða fjölmiðlum Íslandsbanki auglýsir sig, örfáar en óþægilegar úrtöluraddir gefa meðvituðu fólki hnút í magann í umræðum um auknar heimildir kvenna til þungunarrofs, svo sjaldgæft er að þau viðhorf heyrist hér á landi þó vissulega séu þau til staðar. Þannig er Ísland. Stóru slagirnir, sem ég er alls ekki að gera lítið úr, snúast um svo allt annað en þetta: 

Mynd með færslu
 Mynd: un women

Á hverri einustu mínútu eru 23 stúlkur þvingaðar í hjónaband í heiminum. Það samsvarar því að 12 milljónir barnungra stúlkna séu giftar eldri mönnum á hverju einasta ári. Ef Ísland byggi við þessa tölfræði, tæki það okkur 654 og hálfa mínútu að gifta allar íslenskar stelpur á aldrinum ellefu til sautján ára. Tæplega ellefu klukkustundir. Og hvað býður þessara stúlkna?

Allar rannsóknir benda til þess að þvinguð barnahjónabönd hafi varanleg og skaðleg áhrif á líf og heilsu stúlkna. Stelpur sem eru giftar svona snemma er ætlað að sjá um heimili og barneignir þrátt fyrir að vera varla komnar með líkamlegan þroska til að ráða við slíkt streð. Þær eru mun líklegri til að verða fyrir ofbeldi af hendi maka og tengdafjölskyldunnar sinnar en þær konur sem gifta sig eftir tvítugt. En hverjum kemur það svo sem á óvart?

Það sem færri vita er að mæðradauði er helsta dánarorsök stúlkna á aldrinum 15 til 19 ára í heiminum í dag. Ekki umferðaslys, ekki krabbamein eða aðrir lífshættulegir sjúkdómar - nei, meðganga og fæðing. Þannig talar tölfræðin sínu máli. 

Landssöfnun Un Women að þessu sinni snýr að baráttunni gegn barnahjónaböndum í afríkulandinu Malaví. Malaví er sunnarlega í Afríku, litlu stærra land en Ísland - eða svona sirka á stærð við okkur ef Jamaica væri skyndilega límd við suðurland með tonnataki. Malaví er algjörlega inni í miðju landi með enga aðkomu að sjó en landamæri að Zambíu, Tansaníu og Mósambík. Landið er eitt það minnst þróaða í heiminum. Íbúafjöldinn er 17,2 milljónir manna og meðal ævilengd íbúa er 50 ár en tíðni ungbarnadauða er hár. Farir þú í þungunarrof í Malaví getur þú átt von á því að vera dæmd til sjö ára fangelsisvistar. Þeir sem fremja þungunarrof eiga yfir höfði sér fjórtán ára fangelsisvist. Og í takt við þetta er fólksfjölgun með því hæsta sem gerist í heiminum, eða 3,3 prósent á ári. 

Önnur hver stúlka

Það er í tengslum við þetta sem skoða verður barnahjónabönd eða nauðungarhjónabönd í Malaví sérstaklega. Önnur hver stúlka í Malaví hefur verið þvinguð í hjónaband fyrir átján ára aldur. Á meðan íslenskar stallsystur þeirra halda uppi streaki á snapchat eða passa upp á ímyndina á Instagram, sjá Agnesi Joy í bíó, fá sjöur, áttur og níur í skólanum, mæta á æfingar fjórum sinnum í viku, fara í ísbíltúr með pabba og mömmu, kyssa strák á Samfés-ballinu og stelpu í kvöldgöngutúrum um hverfið, horfa á make-up myndbönd á Youtube, æfa sig að syngja lag inn í herbergi, prófa að skrifa rapptexta, plana ferðalög þegar skólagöngunni lýkur, rífast við yngri systkinin og láta sig dreyma - þá er önnur hver jafnaldra þeirra í Malaví, helmingurinn, að sjóða hrísgrjón í potti, þvo þvotta, og þjóna miklu eldri eiginmanni sínum - barn með barn í maganum. 

Algengast er að stúlkurnar séu gefnar eldri eiginmönnum þegar þær eru á aldrinum fimmtán til sautján ára en þó er það svo að ein af hverjum tíu stúlkum í Malaví hefur verið þvinguð í hjónaband áður en þær verða fimmtán ára. Á meðan íslenskar stelpur spá í það hvernig fyrsta skiptið þeirra verður, plana það jafnvel og undirbúa sig bæði líkamlega og andlega fyrir augnablikið þegar þær sannarlega eru tilbúnar, þá er fyrsta skipti tuttugu prósent stelpna í Malaví nauðgun. 

Fátækt og hamfarir vega þungt

Af þeim ríflega sautján milljónum sem búa í Malaví lifir um helmingur þjóðarinnar undir fátæktarmörkum. Foreldrar gefa dætur sínar burt barnungar í þeirri von að stúlkurnar öðlist við það betra líf en fjölskyldan getur séð þeim fyrir, en einnig svo útgjöld fjölskyldunnar minnki og þau hafi meira á milli handanna fyrir annað fólk heimilisins. Í sumum tilfellum eru stelpurnar notaðar sem greiðsla upp í skuldir foreldranna. 

Tíðni nauðungarhjónabandanna eykst svo þegar hamfarir geysa og fátæktin og örbirgðin verður meiri. Á síðustu tveimur árum hefur til að mynda orðið mikil eyðilegging á Malaví vegna flóða og ofsaveðurs. Þá ríkur fólk upp til handa og fóta og giftir dætur sínar frá sér. 

Þrátt fyrir að UN Women sé stofnað af Sameinuðu þjóðunum til að stuðla að kynjajafnrétti í heiminum er það langt frá því svo að Sameinuðu þjóðirnar hafi knúið fram um jafnrétti hjá öllum löndum innan vébanda samtakanna. Í meira en 100 löndum af þeim 193 sem eiga aðild að Sameinuðu þjóðunum er nauðgun af hendi maka ekki refsiverð. Í 45 þessara landa eru engin lög til að vernda konur gegn heimilisofbeldi. Og það þarf ekki snilling til að átta sig á að þar er ástandið auðvitað verst. Í Malaví er heimilisofbeldi gagnvart verðandi mæðrum algengast hjá aldurshópnum fimmtán til nítján ára. 

Landssöfnun UN Women hér á landi fer fram á RÚV klukkan 19:45 föstudaginn 1. Nóvember næstkomandi. Þá er safnað fyrir því að UN Women geti veitt héraðshöfðingjum fjárhagslega og tæknilega aðstoð til að uppræta barnahjónabönd. Þá fara fjármunirnir líka til að veita fræðslu til yfirvalda og foreldra um alvarlegar afleiðingar þess að þvinga stúlkur í hjónabönd. 

Stelpurnar sem hafa verið giftar eldri mönnum eru studdar af Un Women til náms til dæmis með þeim fjármunum sem safnast á föstudag. Þá kannski eiga þær meiri séns á að verða stelpur sem rífast í yngri systkinunum og æfa sig að syngja inní herbergi, kyssa einhvern sem þær langar raunverulega að kyssa og láta sig dreyma. 

 

 

Tengdar fréttir

Afríka

Stúlkur eru seldar fyrir mat

Veður

732 lík fundin í Mósambík, Malaví og Simbabve