Hlýjasti vetur í veðurmælingasögu Evrópu

06.03.2020 - 04:37
Mynd með færslu
Meðalhiti í Helsinki í desember, janúar og febrúar var heilum sex gráðum yfir meðaltalinu á viðmiðunarárunum 1981 - 2010 Mynd: Pixabay
Þessi vetur hefur verið sá langhlýjasti í Evrópu frá upphafi mælinga, að sögn vísindamanna við hina evrópsku Kópernikusarstofnun, miðstöð loftslagsrannsókna á vegum Evrópusambandsins. Yfirstandandi loftslagsbreytingar af mannavöldum eru að líkindum einn megin orsakavaldurinn.

Gögnin sem stofnunin hefur úr að moða ná allt aftur til ársins 1855. Meðalhitastig álfunnar í desember, janúar og febrúar var 3,4 gráðum yfir meðalhita á 30 ára viðmiðunartímabilinu 1981 - 2010 og 1,4 gráðum hærra en fyrra hitamet, sem sett var veturinn 2015 - 16.

Yfirleitt eru hitamet fyrir stór svæði á lengri tíma broti úr gráðu hærri en fyrri met; hækkun um næstum hálfa aðra gráðu er því hvort tveggja í senn afar óvenjulegt og uggvænlegt.

Carlo Buontempo, forstjóri Kópernikusarstofnunarinnar, segir veturinn hafa verið óvenjuhlýjan af ýmsum orsökum en telur næsta víst að undirliggjandi hlýnun Jarðar hafi ýtt enn frekar undir hlýindin. Hann tekur þó fram, að þótt svona hlýr vetur valdi vissulega áhyggjum, þá sé hann ekki dæmigerður fyrir þróunina í loftslagsmálum yfirleitt. „Meðalhiti árstíða, sérstaklega utan hitabeltisins, sveiflast verulega milli ára,“ segir Buontempo.

Hitamet víða slegin og sjór aldrei hlýrri

Engu að síður vænta vísindamenn þess að hlýnun Jarðar muni valda tíðari og meiri sveiflum í hitastigi en áður. Auk þessa methitaveturs í Evrópu er bent á nýliðið sumar í Ástralíu sem var það næst heitasta í sögunni, aðeins örlitlu svalara en metsumarið 2018-19. Þar voru líka víða slegin hitamet, rétt eins og víða í Evrópu, einkum í álfunni norðanverðri.

Á Suðurskautslandinu mældist í fyrsta sinn rúmlega 20 stiga hiti í febrúar, næstum heilu stigi hærri en fyrra met frá 1982. Árið 2019 var líka næst-hlýjasta ár sem sögur fara af og hvort sem litið er til síðustu fimm ára eða síðustu tíu, þá voru það heitustu fimm- og tíu ára tímabilin í sögu veðurmælinga. Auk þess hefur hiti sjávar aldrei mælst hærri en í fyrra.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi