Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hluti vantaði í lendingarbúnað á slysstað

09.02.2020 - 18:13
Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Bragi Bárðarson - Víkurfréttir
Ákveðna hluti vantaði í lendingarbúnað Boeing vélar Icelandair, sem gaf sig á föstudag, þegar rannsókn hófst. Rannsóknarnefnd samgönguslysa skoðar hvort yfirfara þurfi aðrar flugvélar með sambærilegan lendingarbúnað. Flugöryggisstofnun Evrópu hefur verið gert viðvart um málið.

Rauðu hættustigi var lýst yfir á Keflavíkurflugvelli síðdegis á föstudag eftir að hægra hjól flugvélarinnar, sem var á leið frá Berlín, brotnaði í lendingu. 166 manns voru um borð en engin slys urðu á fólki. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í hádegisfréttum RÚV í dag að skipt hefði verið um lendingarbúnað í vélinni í reglubundinni eftirlitsskoðun í Kanada í nóvember. Hann var því glænýr. 

Vélin var aftur tekin í umferð eftir skoðunina í byrjun janúar og flaug 63 ferðir áður en búnaðurinn gaf sig í Keflavík. Flugvefurinn Aviation Herald birti í gær myndir af atvikinu og greinir frá því að bolta hafi vantað í lendingarbúnaðinn.

Ragnar Guðmundsson, flugvélaverkfræðingur sem stýrir rannsókn rannsóknarnefndar samgönguslysa, segir það ekki rétt. Aftur á móti hafi vantað aðra hluti.

„Það vantaði ákveðna hluti í lendingarbúnaði á þeim stað sem hún lá á slyssað. Ég er ekki til í á þessari stundu að tjá mig nánar um það, við erum bara með þetta til rannsóknar,“ segir hann.

Skoða mögulega vélar með sama lendingarbúnað

Verið sé að athuga hvort skoða þurfi aðrar vélar með sams konar lendingarbúnað.

„Eitt af því sem snýr að rannsókninni er að athuga hvort að þetta sé einstakt og einangrað tilfelli eða hvort það snýrt að fleiri flugvélum, hvort sem er hjá þessum flugrekanda eða öðrum. Við erum ekki komnir á þann stað í rannsókninni. Ef slíkt reynist vera tilfellið verða viðeigandi ráðstafanir gerðar til að athuga fleiri flugvélar ef þess þarf. Það er mikið forgangsmál í rannsókninni að komast að því hvort að þetta hafi áhrif á aðrar flugvélar líka. 

Flugöryggisstofnun Evrópu gert viðvart

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur upplýst systurstofnanir sínar í Bandaríkjunum, Kanada og Bretlandi um málið og munu þær einnig koma að rannsókninni. Þá hefur Flugöryggisstofnun Evrópu verið gert viðvart um málið. Það er því ljóst að rannsóknin er mjög umfangsmikil og gæti tekið á bilinu eitt til þrjú ár. Styttri tíma tekur þó að komast að því hvort skoða þurfi fleiri vélar.

„En það ferli sem snýr að því að finna út hvort bilunin tengist eingöngu þessu loftfari, eða einhverjum öðrum líka, það er í rauninni miklu miklu skemmra ferli.“ 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV