Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hluti Flateyrar enn án rafmagns

23.01.2020 - 18:21
Mynd: RARIK / RÚV
Rafmagnslaust var víða á Vestfjörðum í dag vegna seltu á línum og tengivirkjum. Rafmagn er nú komið á víðast hvar en keyrt er á varaafli á Flateyri.

„Allir sem eru tengdir fjarvarmaveitu eru komnir með hita og flestir sem eru með beina rafhitun eru komnir með rafmagn en það er hluti bæjarins enn þá úti en ég vona að úr því rætist núna von bráðar,“ sagði Elías Jónatansson, orkustjóri Orkubús Vestfjarða í viðtali við Arnar Pál Hauksson í útvarpsfréttum klukkan 18:00. 

„Núna er verið að keyra á varaaflsstöð Landsnets í Bolungarvík og hún heldur inni norðanverðum Vestfjörðum, nema Flateyri vegna þess að á tengivirkinu á Flateyri, þar hefur verið selta sem menn voru að vinna við að skola af en það er verið að vinna í því að koma spennu á virkið þessa stundina.“

Á Patreksfirði er líka notast við varaafl þar sem Patreksfjarðarlína virkar ekki sem skyldi. Slæmt veður hefur verið á Vestfjörðum í dag og um tíma var appelsínugul viðvörun í gildi. Elías segir að veðrið hafi aðeins gengið niður og úrkoman hafi minnkað. Því hafi loks verið hægt að skola tengivirki í Breiðadal og vonast Elías til þess að spenna komi á virkið á næstu mínútum.