Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hlutgerving tónlistarinnar

Mynd:  / 

Hlutgerving tónlistarinnar

30.01.2019 - 14:58

Höfundar

Í Hafnarborg opnuðu tvær nýjar sýningar um helgina. Á efri hæðinni gefur að líta sýninguna Hljóðön sem fagnar fimm ára starfsafmæli samnefndrar tónleikaraðar um þessar mundir. Hún er tileinkuð samtímatónlist og hefur verið á dagskrá Hafnarborgar frá árinu 2013. Fjöldi verka prýðir salinn þar sem gerð er tilraun til að teygja sig út fyrir heim hljóða yfir í hið sjónræna.

Sýningarstjóri Hljóðana er Þráinn Hjálmarsson, tónskáld. Hann segir sýninguna takast á við tónlistina eins og hún leggur sig og því margir þræðir sem hægt væri að rekja upp. „En það sem var kannski ofan á var þessi hugmynd um hlutgervingu hljóðanna og hvernig við leyfum hlutheiminum að hafa áhrif á hvernig við hlustum og upplifum hljóð ólíkt.“

Níu klukkur kveiktu neista

Kveikjan að sýningunni eru níu klukkur sem hanga í sal á efri hæð Hafnarborgar. Þær eru sviðsmynd tónverksins Níu klukkur eftir bandaríska tónskáldið Tom Johnson.

„Tónverkið sjálft er níu kaflar og það eru níu ólík göngumynstur flytjandans. Það er sem sagt einleikari, einn slagverksleikari sem gengur á milli bjallanna og fer ólíkar gönguleiðir - níu mismunandi. Og svo ofan í það skapast ólík tónamynstur þar sem að flytjandinn getur þá leikið á bjöllurnar í leiðinni og í rauninni er rýmið búið að ákvarða dálítið tímann í tónlistinni og bara tónlistalegu möguleikana,“ segir Þráinn. 

Frosinn hljómur

Magnús Pálsson á verk á sýningunni sem ber heitið Lúðurhljómur í skókassa. „Hann byggir þetta dálítið á sögu barónsins Münchhausen sem var nú ansi lygasjúkur þegar hann sagði sögur af sjálfum sér. Og þessi saga af honum segir að hann var þarna við veiði og er með veiðihornið sitt og blæs í fimbulkulda í hornið og það sem gerist er að hljómur lúðursins frýs í frostinu. Svo vill hann meina það að þegar baróninn kemur í veiðikofann um kvöldið og leggur lúðurinn á arinninn - þá með tímanum hafi lúðurinn þiðnar og hljómurinn sjálfur dottið úr lúðrinum. Þannig þetta er svolítið hlutgerving þessa hljóðs þetta verk. Þetta er innblásið af því.“

Hljóðön og hljóðungar

Nafn sýningarinnar er fengið úr hljóðfræði tungumála. „Upp á ensku og frönsku er þetta „phoneme“. Það er hugmyndin með tónleikaröðinni, að þegar maður raðar verkum saman geta nokkur verkanna sín á milli myndað einhvers skonar merkingu. Eins og hljóðön, þú raðar hljóðum ólíkt saman og getur myndað orð og setningar en þú getur líka skapað merkingarleysu sem er þá hljóðleg útfærsla,“ segir Þráinn.

Mynd með færslu
 Mynd:

Þá taka gestir sýningarinnar þátt í mótun eins tónverksins með því einu að spila tölvuleik. „Við eru í rauninni að flytja verk eða taka þátt í tónverki eftir Marko Cicilian. Hann er eiginlega búinn að víkka hugmyndina um hvað er tónsmíð og öll hljóðin sem þú heyrir eru í rauninni bara orsök af því sem þú ert að gera innan þessa sýndarheims. Eins og má segja upp á gamla mátann: LAN.“

Fjallað var um sýninguna Hljóðön í Menningunni og rætt var við Þráin Hjálmarsson. Horfa má á innslagið hér að ofan.