Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hlutfall kvenleikstjóra fór úr 21% í 6%

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Hlutfall kvenleikstjóra fór úr 21% í 6%

19.02.2018 - 14:39

Höfundar

Konur hafa frá árinu 1949 leikstýrt tólf prósentum íslenskra kvikmynda. Helga Rakel Rafnsdóttir, formaður WIFT, Samtaka kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi, segir margt mæla með því að taka upp kynjakvóta í kvikmyndum. Á árunum 1990 til 1999 leikstýrðu konur 21% kvikmynda. Þetta hlutfall hefur lækkað til muna. Frá árinu 2010 er hlutfall kvikmynda sem kona leikstýrir 6%.

Fram kom í máli Laufeyjar Guðjónsdóttur, forstöðumanni Kvikmyndasjóðs, í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun að erfiðara væri að markaðssetja kvikmyndir eftir konur, áhorfendur tækju seinna við sér.

Dögg Mósesdóttir, í stjórn WIFT, bendir á að kvikmyndir eftir konur hafi notið mikillar velgengni, ekki síst meðal almennings hérlendis en líka á kvikmyndahátíðum. Fjöldi dæma sýni það, eins og Stella í orlofi, Regína, Ungfrúin góða og húsið, Veðramót, Dís, Karlakórinn Hekla, Ingaló, Á hjara veraldar, Sumarbörn, Svanurinn og Andið eðlilega. 

Dögg segir að reynslan af kynjakvótum í kvikmyndum hafi verið góð. „Nýleg sænsk rannsókn sýnir að þegar kynjakvótar eru nýttir þá vanalega fara miðlungshæfir karlmenn og hæfir frá og mjög hæfar konur komast að kjötkötlunum,“ sagði Dögg í viðtali við Morgunvaktina á Rás 1. Hún segir að kynjakvótum hafi verið beitt í Noregi og það hafi skilað sér í því að fleiri kvikmyndir með kvenleikstjórum hafi verið gerðar. Hann hafi síðan verið lagður niður og þá hafi hlutur kvenna minnkað á ný. 

Helga Rakel og Dögg segja að í kjölfar þrýstings frá WIFT hafi Kvikmyndamiðstöð Íslands tekið sig á og hafi undanfarið staðið sig vel í því að reyna að rétta hlut kvenna. Framtíðin sé engu að síður ekki mjög björt. „Á þessu ári er engin kona komin með vilyrði fyrir styrk, ekki í heimildarmynd, stuttmynd eða mynd í fullri lengd,“ segir Dögg.

Helga Rakel tekur undir með Laufeyju um að brýnt sé að hrinda af stað markaðsátaki til að rétta hlut kvenna. Vandinn sé hins vegar stór og flókinn og hluti af kerfi sem þurfi að brjóta upp. „Hann er kerfislægur og hugarfarslegur,“ segir Helga Rakel.

Hagstofan birti nýverið tölur um hlutfall kvenna í kvikmyndum.

 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Fangar með flestar tilnefningar til Eddunnar

Kvikmyndir

Ísold besti alþjóðlegi leikstjórinn á Sundance

Kvikmyndir

„Okkur finnst við þegar hafa unnið“

Kvikmyndir

„Nýtt landslag. Nýjar raddir“