Hlutabréf í Icelandair hríðfalla í verði

09.07.2018 - 12:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Afkomuviðvörun Icelandair sem birt var í gær vekur mikil viðbrögð fjárfesta og hlutabréf hafa hríðfallið í verði í dag.

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur fallið um 25 prósent í 400 milljóna viðskiptum í Kauphöll Íslands í morgun. Félagið sendi seint í gærkvöld frá sér afkomuviðvörun þar sem áætlað er að rekstrarhagnaður félagsins verði mun minni en áður hafði verið spáð. 

Talsvert rask hafi verið í flugáætlun Icelandair undanfarnar vikur, seinkun á innleiðingu flugvéla, veðurfar og fleira hafi valdið auknum kostnaði auk þess sem tekjur hafi tapast.

Núna er gert ráð fyrir að rekstrarhagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir - verði að jafnvirði 12,7 til 14,8 milljarðar króna á þessu ári. Áður hafði félagið spáð að niðurstaðan yrði á bilinu 18 til 20 milljarðar króna á árinu. 

Fram kemur í afkomutilkynningunni að olíuverð hafi hækkað um 50 prósent á seinustu 12 mánuðum. Töluverðar afbókanir hópa hafi verið hjá ferðaskrifstofunni Iceland Travel vegna minnkandi samkeppnishæfni Íslands sem einnig hafi áhrif á afkomu. Aukið framboð á flugi yfir Atlantshaf á nokkrum lykilmörkuðum félagsins hafi haft áhrif á verðþróun á háannatíma og bókanir farið hægar af stað á nýja áfangastaði sem Icelandiar hafi fjárfest í til að styrkja leiðakerfið til lengri tíma. 

Þrátt fyrir þetta telja forsvarsmenn Icelandair að til lengri tíma litið séu horfur í rekstri góðar. Vöxtur sé á flestum mörkuðum félagsins, það sé fjárhagslega sterkt og með góða stöðu á mörkuðum. 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi