Hlusta ekki á tilmæli Afríkusambandsins

18.01.2019 - 16:43
Mynd með færslu
Martin Fayulu (til vinstri) sakar Felix Tshisekedi um að hafa rænt sig sigri í forsetakosningunum. Mynd:
Ráðamenn í Austur-Kongó vísuðu í dag á bug tilmælum Afríkusambandsins um að fresta því að lokaniðurstaða forsetakosninganna 30. desember verði birt. Samkvæmt bráðabirgðaúrslitum sigraði Felix Tshisekedi. Annar frambjóðandi, Martin Fayulu, hefur kært niðurstöðuna til stjórnlagadómstóls landsins. Hann hefur málið enn til skoðunar.

Að sögn stjórnvalda hafa hvorki þau né Afríkusambandið neitt um niðurstöðu dómstólsins að segja. Moussa Faki Mahamat, framkvæmdastjóri Afríkusambandsins, og forseti þess um þessar mundir, Paul Kagame, forseti Rúanda, hyggjast fara til Austur-Kongó eftir helgi til að koma á framfæri efasemdum um að bráðabirgðaniðurstaða forsetakosninganna sé rétt.

Martin Fayulu heldur því fram að Tshisekedi ætli að deila völdum með Joseph Kabila, fráfarandi forseta. Kabila hefur verið við völd síðastliðin átján ár, tveimur árum lengur en stjórnarskrá landsins heimilar.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi