Une Misére hefur vakið mikla athygli hér á landi sem og erlendis fyrir frumkraft og orkumikla sviðsframkomu en þeir verða eitt af sjö íslensku atriðum sem fram koma á Eurosonic tónlistarráðstefnunni í Hollandi. Hátíðin er í Groningen og hefst í dag og stendur fram yfir helgi. Liðsmenn hljómsveitarinnar segjast afar spenntir yfir gangi mála; stór draumur sé að rætast. Þeim hefði fundist það afar fjarstæðukennt hefði einhver nefnt mögulegt samstarf þeirra við Nuclear Blast í upphafi þeirra ferils.
„Við erum í skýjunum. Þessi samningur þýðir virkilega, virkilega mikið fyrir okkur. Í framhaldi förum við strax í hljóðver núna í febrúar og stefnum á útgáfu seinna á árinu,“ segir Jón Már Ásbjörnsson söngvari Une Misére sem býst við að hitta fulltrúa útgáfunnar Nuclear Blast á Eurosonic um helgina. „Við búumst við tíðari ferðalögum og aukinni spilamennsku erlendis í kjölfar þessa samnings og strax í upphafi árs er heilmikið framundan sem ekki er hægt að upplýsa strax,“ segir Jón Már jafnframt sem staddur var á Schiphol flugvellinum í Amsterdam á leið til Groningen.