Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hljómsveitin Une Misére semur við stórútgáfu

Mynd með færslu
 Mynd:

Hljómsveitin Une Misére semur við stórútgáfu

16.01.2019 - 13:39

Höfundar

Íslenska hljómsveitin Une Misère skrifaði í vikunni undir samning við útgáfufyrirtækið Nuclear Blast sem er eitt það stærsta innan þungarokkheimsins. Hljómsveitin fagnar með því að koma fram á Eurosonic í Hollandi og með nýútgefnu lagi og myndbandi.

Une Misére hefur vakið mikla athygli hér á landi sem og erlendis fyrir frumkraft og orkumikla sviðsframkomu en þeir verða eitt af sjö íslensku atriðum sem fram koma á Eurosonic tónlistarráðstefnunni í Hollandi. Hátíðin er í Groningen og hefst í dag og stendur fram yfir helgi. Liðsmenn hljómsveitarinnar segjast afar spenntir yfir gangi mála; stór draumur sé að rætast. Þeim hefði fundist það afar fjarstæðukennt hefði einhver nefnt mögulegt samstarf þeirra við Nuclear Blast í upphafi þeirra ferils.

„Við erum í skýjunum. Þessi samningur þýðir virkilega, virkilega mikið fyrir okkur. Í framhaldi förum við strax í hljóðver núna í febrúar og stefnum á útgáfu seinna á árinu,“ segir Jón Már Ásbjörnsson söngvari Une Misére sem býst við að hitta fulltrúa útgáfunnar Nuclear Blast á Eurosonic um helgina. „Við búumst við tíðari ferðalögum og aukinni spilamennsku erlendis í kjölfar þessa samnings og strax í upphafi árs er heilmikið framundan sem ekki er hægt að upplýsa strax,“ segir Jón Már jafnframt sem staddur var á Schiphol flugvellinum í Amsterdam á leið til Groningen. 

Une Misére hefur fram að þessu einungis gefið út eina smáskífu og þriggja laga kassettu á stafrænu formi og því spennandi að fylgjast með komandi útgáfu. Auk kröftugrar sviðsframkomu hefur textagerð og mikilvægur boðskapur hljómsveitarinnar vakið jákvæða athygli. Þar hafa þeir meðal annars fjallað um geðsjúkdóma og fíkniefnavanda og nú í kjölfar útgáfusamningsins gefa þeir út myndband við nýtt lag sem heitir Damages. „Damages fjallar um þunglyndi, kvíða og fíkn. Fíkn og geðsjúkdómar munu alltaf vera til staðar, þetta er ekki læknanlegt ástand en það má hins vegar meðhöndla það. Við hvetjum alla sem eiga erfitt eða eru að glíma við sjálfan sig að leita sér hjálpar. Tala við einhvern. Það er alltaf einhver sem er til í að hlusta,“ segir Jón Már. Lagið Damages er tileinkað Bjarna Jóhannesi Ólafssyni, góðum vini hljómsveitarinnar sem svipti sig lífi á síðasta ári.

Hljómplötuútgáfan Nuclear Blast hýsir mörg af allra stærstu nöfnum þungarokkheimsins í dag en þar má nefna Slayer, Meshuggah og Behemoth. „Það að vera nefndir á nafn í sömu andrá er að sjálfsögðu mikill heiður og nú er bara að standa undir því. Þetta er tækifæri sem við ætlum að sjálfsögðu ekki að láta fara til spillis.“ 

Myndina af Une Misére efst í fréttinni tók Amy Haslehurst.

Tengdar fréttir

Tónlist

Mýtan ekki búin að bíta í skottið á sér

Tónlist

Íslendingar í 4. sæti á Wacken Metal Battle