Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hlíðarmenn fullsaddir af hálkuóhöppum og sandsparnaði

17.01.2020 - 10:05
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Íbúar á sveitunum í kringum Egilsstaði telja öryggi sínu ógnað vegna þess að sveitavegir séu illa hálkuvarðir og sandur sparaður. Skólabílar hafa farið út af og í Jökulsárhlíð hafa íbúar fengið sig fullsadda af óhöppum á svellinu.

„Það er búið að vera mjög slæmt. Fljúgandi hálka. Það er meira að segja einn bíll út af núna hér rétt utan við Brúarás. Þetta hefur nánast verið ófært,“ segir Rögnvaldur Ragnarsson á Hrafnabjörgum en við hittum hann á Ford Bronco árgerð 1984.

Fjallað var um málið í 22 fréttum í gærkvöld: Horfa á fréttatíma

Fór út af á leið til vinnu

Svellin á Héraði hafa verið þaulsetin í umhleypingunum síðustu vikur. Eftir að Elísa Butt Davíðsdóttir, ferðaþjónustubóndi á Hrafnabjörgum 4 í Jökulsárhlíð, hafði margbeðið Vegagerðina og sveitarfélagið um sand lenti hún sjálf í óhappi á leið til vinnu. „Þá bara fer þetta svona maður bara rennur út af í hálkunni. Þetta er náttúrulega engin venjuleg hálka. Það rignir ofan í þetta og þá skiptir ekki máli hvort maður sé á nöglum eða ekki þú bara rennur út af. Mjólkurbíllinn er búinn að fara út af, ruslabíllinn er búinn að fara út af. Það fór unga stelpa hér út af um daginn og keyrði í gegnum girðinguna. Ég er búin að fara út af og ferðamenn sitja fastir, fara út af. Skólabílar líka,“ segir Elísa.

„Allir alveg panikka“

Þetta voru skólabílar bæði úr Skriðdal og Hlíð og lentu út af þó þeir væru á nagladekkjum. Sonur Elísu, Alexander Þór Helgason, 13 ára nemandi í Brúarásskóla var í öðrum bílnum sem lenti í vanda í brekku. „Hann var kannski hálfnaður upp þá stoppar hann Þá fer bíllinn að renna og fer í girðinguna. Allir alveg panikka. Það er rugl. Það ætti að salta oftar og fara lengra niður eftir,“ segir Alexander.

Guðmundur Ólafsson skólabílstjóri ekur Jökuldal að austanverðu og telur að hætta hafi skapast vegna hálkunnar. „Ég tel það já að þetta sé svona alveg á mörkunum. Það eru brattar brekkur, einbreiðar brýr og hálkan hefur stundum legið alveg að þeim.“

Dýrt að hálkuverja í umhleypingum

Svellin hafa verið rifin sem kallað er. Það verður aftur slétt ef hlýnar og frystir en sandur er ekki notaður nema á stöku stað. Það eru verkstjórar Vegagerðarinnar og Fljótsdalshéraðs sem ákveða í sameiningu hvort ástæða sé til að sandbera, salta eða skafa svellin. Kári Ólason, verkstjóri Fljótsdalshéraðs, segir að ökumenn þurfi sjálfir að meta aðstæður og vera rétt búnir. Peningum sé illa varið í sandburð í stanslausum umhleypingum. „Ég held að það sé nánast ógjörningur að ætla sér að hálkuverja allt Fljótsdalshérað á hverjum degi, daglega. Bæði út af mannskap, tækjum og ekki síst kostnaði. Ef menn ætla að búa úti í sveit þá er það mín skoðun og margra annarra að menn hljóta að vera undir það búnir með tæki og tól ef menn ætla að vera á ferðinni alla daga,“ segir Kári.

Íbúar í sveitum háðari samgöngum en áður

Elísa segir hins vegar að breyttir tíma kalli á aukna þjónustu. „Skólabílar keyra hérna og fólk þarf að mæta í vinnu. Það er að yngjast upp í sveitinni. Það eru komnar aðrar kröfur. Bara sinna þessari grunnþjónustu, maður biður ekki um meira en það.“

 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV