Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hlé gert á leit fram í birtingu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ingólfur Haraldsson, í svæðisstjórn björgunarsveitanna á höfuðborgarsvæðinu, segir að 60 manns hafi leitað við athafnasvæðið við Hvaleyrarlón í Hafnarfirði í nótt. Leitað hafi verið í tuttugu hópum.

 „Það var leitað með fram strandlengjunni og á opnum svæðum bæði með leitarhundum og leitarhópum. Nú verður nokkurra klukkutíma hlé þar til birtir þá munum við hefja aftur leit,“ segir Ingólfur.  

Birnu Brjánsdóttur hefur verið saknað frá því snemma á laugardagsmorgun. Birna er fædd 1996, hún er 170 cm há, um það bil 70 kílógrömm, með sítt, ljósrautt hár. Birna var klædd í svartar gallabuxur, gráa peysu, svartan flísjakka með hettu og svarta Dr. Marten skó.  

Skópar líkt því sem Birna klæddist fundust nærri birgðastöð Atlantsolíu við Óseyrarbraut í Hafnarfirði síðla kvölds í gær. Ingólfur segir að engar aðrar vísbendingar hafi fundist við leitina í nótt.

Mynd með færslu
 Mynd: Google Maps
Á kortinu fyrir ofan má sjá hvar skóparið fannst.

Ágúst Svansson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við fréttastofu í nótt að tæknideild hafi fengið skóna til að sannreyna hvort þeir tilheyri Birnu. Auk björgunarsveitarmanna og lögreglumanna hafi verið leitarhundar á vettvangi í nótt og tveir drónar. 

Lögreglan lauk störfum á vettvangi í bili í morgunsárið, samkvæmt upplýsingum frá lögreglustöðinni í Hafnarfirði. Skoðað verði í birtingu hvort farið verði í frekari leit á svæðinu. 

Þeir sem kunna að hafa einhverjar upplýsingar eru beðnir að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444 1000.