Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hjúkrunarrýmum Höfða fjölgar úr 65 í 69 á næsta ári

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráð Íslands
Höfði á Akranesi fær varanlega heimild til að reka fjögur hjúkrunarrými sem þar hafa verið notuð tímabundið sem biðrými fyrir Landspítalann. Rýmin voru ætluð þeim sem tilbúin voru til að útskriftast af Landspítala en biðu eftir varanlegri búsetu á hjúkrunarheimili.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Rýmin voru opnuð fyrir tveimur árum. Reiknað var með að þau yrðu notuð tímabundið, fram að opnun nýs 99 rýma hjúkrunarheimilis við Sléttuveg.

Stjórnendur Höfða og bæjarstjórn Akraneskaupstaðar höfðu farið þess á leit við ráðuneytið að heimilað yrði að rýmin yrðu hluti af almennum rekstri Höfða. Aðstaða og mönnun væri fyrir hendi til þess. 

Nú hefur Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra veitt Höfða varanlega heimild fyrir rýmunum. Í mars á næsta ári, þegar tímabundinn samningur um rekstur biðrýmanna rennur út, fjölgar því almennum hjúkrunarrýmum á Höfða úr 65 í 69.