Hjúkrunarfræðingar segja þolinmæðina á þrotum

Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd:
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga segir að stefnuleysi stjórnvalda knúi á róttækar aðgerðir, en kjaraviðræður hjúkrunarfræðinga við ríkið ganga mjög hægt að sögn félagsins.

Gerðardómur sem settur var á kjaradeilu hjúkrunarfræðinga rann út fyrir níu mánuðum síðan. Síðasti kjarasamningur sem Fíh skrifaði undir var árið 2014 og hafa hjúkrunarfræðingar því ekki samið um kaup og kjör við íslensk stjórnvöld í meira en fimm ár.

„Staðan í íslensku heilbrigðiskerfi er grafalvarleg og aðgerða er þörf ef ekki á illa að fara. Umfangsmiklar lausnir þarf til að bæta laun og starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta,“ segir í yfirlýsingu félagsins í dag.

Þar segir jafnframt að þær lausnir sem Fíh hefur lagt fram sem miða að því að leysa kjaramál hjúkrunarfræðinga hafa fengið lítinn hljómgrunn frá samninganefnd ríkisins. 

„Hvort sem stjórnvöldum líkar það betur eða verr þarf umfangsmiklar lausnir til þess að bæta laun og starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta. Byrja þarf samtalið fyrir alvöru ef ekki á illa að fara. Þolinmæði hjúkrunarfræðinga er á þrotum,“ segir Gunnar Helgason, sviðsstjóri kjarasviðs Fíh.