Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Hjúkrunarfræðingar ávísi pillunni

15.03.2012 - 19:58
Mynd með færslu
 Mynd:
Mjög ungar stúlkur eru farnar að stunda kynlíf, alveg niður í ellefu ára gamlar, segir skólahjúkrunarfræðingur sem er hlynntur frumvarpi velferðarráðherra um að þeir fái að skrifa lyfjaávísanir fyrir unglinga upp á getnaðarvarnarlyf.

Samkvæmt frumvarpinu fá ljósmæður og hjúkrunarfræðingar, þar á meðal skólahjúkrunarfræðingar, að skrifa lyfseðla á getnaðarvarnarpilluna. Þetta er háð því að þeir ljúki sérstöku námskeiði í Háskóla Íslands og landlæknir veiti þeim leyfi til lyfjaávísananna. Almennt eru hjúkrunarfræðingar hlynntir frumvarpinu.

Sigrún Björnsdóttir, hjúkrunarfræðingur í Austurbæjarskóla, segir að skólahjúkrunarfræðingar séu í nánum tengslum við stúlkur, janfvel frá því þær séu litlar, og eigi því auðvelt með að ráðleggja þeim. „Og stúlkur eru oft ekki tilbúnar til að fara til læknis út af svona málum og þekkja oft ekki sinn heimilislækni. Ég er alveg viss um að miklu fleiri stúlkur myndu taka pilluna af því að stúlkur eru farnar að lifa kynlífi mjög ungar í dag. Það er alveg niður í ellefu, tólf ára gamlar, þannig að það er brýn þörf fyrir marga að taka pilluna af því að þunganir eru algengar hjá ungum stúlkum eins og annars staðar,“ segir Sigrún.

Geir Gunnlaugsson landlæknir hefur sagt að ekki þurfi að upplýsa foreldra ef barn fái getnaðarvarnapilluna.

Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, segir að erfitt sé að ráða við það ef unglingar hafi ákveðið að stunda kynlíf. „En hins vegar þurfa foreldrar að vera með í málum, það er ekki hægt að bara útiloka þá í þessu, sérstaklega ekki ef um mjög ung börn er að ræða,“ segir Hrefna.

Hún óttast ekki að börn og unglingar fari í meira mæli að stunda kynlíf. „Hins vegar gæti þetta kannski orðið til þess að ábyrgðin færist yfir á stúlkurnar, þær sækja getnaðarvarnapilluna. Það þarf auðvitað líka að hamra á því að þó þær fái getnaðarvarnarpillu þá þarf að passa sig á kynsjúkdómum og það er svona ýmiss konar önnur kynfræðsla og svo er þetta ekki bara líkamlegt, það er líka andlega hliðin sem þarf að fræða unglinga um,“ segir Hrefna.