Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hjólin byrja aftur að snúast á næsta ári

01.11.2019 - 09:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hagstofa Íslands gerir ráð fyrir lítils háttar samdrætti í ár en að hagvöxtur taki við sér að nýju á næsta ári. Hann verði þó hóflegur. Horfur um atvinnuleysi eru lítt breyttar frá fyrri spám.

Hagstofan birti þjóðhagsspá sína í morgun og eru niðurstöður hennar áþekkar þjóðhagsspá Landsbankans sem birt var í vikunni. Hagstofan gerir ráð fyrir 0,2 prósenta samdrætti í ár en 1,7 prósenta hagvexti á því næsta. Það sem eftir lifir spátímans, það er frá 2021 til 2025 er gert ráð fyrir 2,5 til 2,7 prósenta hagvexti.

Landsbankinn hafði spáð 0,4 prósenta samdrætti í ár og 2 prósenta hagvexti á því næsta.

Meiri neysla með auknum kaupmætti

Vegna óvissu í efnahagsmálum hafa heimilin haldið að sér höndum og því einungis gert ráð fyrir 1,8 prósent vexti einkaneyslu. Það losnar aðeins um pyngjuna samhliða efnahagsbata og vaxandi kaupmátti launa og spáð 2,4 prósenta vexti árið 2020. Vöxturinn verður svo 2,6 prósent að meðaltali út spátímann.

Gert er ráð fyrir að fjárfesting lækki um 9,1 prósent í ár vegna samdráttar í atvinnuvegafjárfestingu og opinberri fjárfestingu. Á næsta ári er reiknað með 3,7 prósent vexti fjárfestingar vegna bata í atvinnuvegafjárfestingu og aukningar í íbúðafjárfestingu. Áætlað er að fjárfesting aukist að meðaltali um rúmlega 3 prósent árin 2021-25.

Innflutningur dregst saman

Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar verður jákvætt í ár, einkum vegna samdráttar í innflutningi, en verður neikvætt á næsta ári og breytist lítið eftir það. Spáð er viðskiptaafgangi í ár sem nemur 2,9 prósent af vergri landsframleiðslu en á næstu árum er reiknað með að hann verði um 1,4 prósent.

Spáð er að vísitala neysluverðs hækki um 3 prósent að meðaltali í ár en verði eftir það nálægt 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands í ljósi hóflegra launahækkana og forsendu um stöðugt gengi krónunnar. Horfur um atvinnuleysi hafa lítið breyst og er reiknað með að það verði 3,8 prósent í ár.
Næsta þjóðhagsspá verður birt í febrúar á næsta ári.

Magnús Geir Eyjólfsson