Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hjólhýsi seljast eins og heitar lummur

23.07.2015 - 22:17
Mynd: RÚV / RÚV
Sala á nýjum hjólhýsum hefur aukist um meira en þriðjung á síðustu tveimur árum. Mun fleiri hjólhýsi hafa verið seld það sem af er þessu ári, en allt árið í fyrra. Dæmi eru um að fólk greiði ekkert út, og fjármagni útborgun með raðgreiðslum.

Kristín Anný Jónsdóttir, sölustjóri hjá Víkurverki, segir mikla aukningu á sölu hjólhýsa í ár. „Þetta er svona eiginlega að verða svona eins og 2007. Þetta er bara orðinn vinsælasti ferðamátinn í dag, það eru hjólhýsin, eins og er. Alla vega þetta árið,“ segir Kristín. Veðráttan á Íslandi og þægindin við það að ferðast með hjólhýsi sé helsta ástæðan. „Það eru náttúrulega bara fyrst og fremst þægindin, þú ert að draga bústaðinn á eftir þér og vilt hafa það huggulegt,“ segir Kristín.

Í hjólhýsunum er enda allt til alls, klósett og sturta, ísskápur og eldavél, og í sumum hjólhýsunum er meira að segja hiti í gólfum. Nú er svo komið að nýju hjólhýsin eru að seljast upp. „Við erum búin að selja ansi mikið af nýjum, og notuðum. Það eru alltaf einhverjir sem leita að svona kannski 2-2,5 milljóna króna hjólhýsum, svo koma sumir og ætla að kaupa eina slöngu en labba út með 5 milljóna króna hjólhýsi,“ segir Kristín.

Árið 2013 voru 159 hjólhýsi nýskráð á Íslandi. Í fyrra voru þau 171, og það sem af er þessu eru þau 211. Þetta er aukning um 33 prósent frá 2013. Á tveimur og hálfu ári hefur því 541 hjólhýsi bæst við hjólhýsaflota landans.

Nýskráningu fellihýsa hefur aftur á móti snarfækkað. Árið 2007 voru á sjötta hundrað fellihýsa nýskráð á landinu. Árið 2013 voru þau 53, en einungis tvö ný fellihýsi hafa selst í ár.

Ný hjólhýsi kosta frá þremur milljónum allt upp undir sjö milljónir króna. En hvernig fjármagnar fólk kaupin? „Þú getur keypt hjólhýsi, eins og sumir segja með einni undirskrift, þá færðu lán kannski hjá Ergo eða einhverju fjármálafyrirtæki og svo lánar visa raðgreiðslur útborgunina. Þannig að þetta er svolítið tekið svoleiðis sko.“

En skyldu einhverjir staðgreiða hjólhýsin? „Já, það er fólk sem að er að staðgreiða.“

Við komumst samt ekki með tærnar þar sem við höfðum hælana fyrir hrun, en árið 2007 voru 784 hjólhýsi nýskráð á Íslandi.

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV