Hjarðónæmi eða toppur seinna? Ekki svo einfalt!

17.03.2020 - 16:15
Mynd: EPA-EFE / EPA
Í Bretlandi hafa ummæli fulltrúa stjórnvalda um mikilvægi svokallaðs hjarðónæmis ruglað almenning í rýminu. Það sama á við hér, sóttvarnalæknir leiðrétti í gær þann misskilning að það væri markmið stjórnvalda að meginþorri þjóðarinnar sýktist af COVID-19. En er æskilegt að ungt og hraust fólk fái veiruna? Því er erfitt að svara. Stjórnvöld í Bretlandi kynntu í morgun hertar aðgerðir til að stemma stigu við faraldrinum - aðgerðir sem í raun eiga að koma í veg fyrir sýkingar og þar með hjarðónæmi.

Héldu maraþon og skrúðgöngur

Bretar hafa gengið skemmra en mörg önnur ríki í aðgerðum gegn nýju kórónaveirunni.  Þar fóru um helgina fram kappreiðar, maraþon og skrúðgöngur þar sem þúsundir komu saman. Línan frá yfirvöldum hefur hingað til verið sú að fólk með kvefeinkenni eigi að halda sig heima í sjö daga en að öðru leyti megi lífið halda áfram nokkurn veginn eins og ekkert hafi í skorist. Yfir 1500 tilfelli hafa greinst í Bretlandi og 56 hafa látist. Talið er að skuggatalan sé há, að allt að því 50 þúsund séu smituð í landinu. 

Tilfellum fjölgar sífellt hraðar

Staðan í Bretlandi nú svipar til stöðunnar á Ítalíu fyrir þremur vikum. Stjórnvöld þar í landi kynntu í dag stórhertar aðgerðir í því skyni að hemja útbreiðsluna. Boris Johnson, forsætisráðherra, sagði þörf á afdrifaríkum aðgerðum, því tilfellum fjölgi sífellt hraðar. Með þessu áframhaldi tvöfaldist þau á fimm til sex daga fresti. Johnson hvatti Lundúnabúa til að fara sérstaklega varlega, þar væri útbreiðslan hröðust.

Ófrískar konur hvattar til að gæta sín sérstaklega

Bresk stjórnvöld mæla með því að ófrískar konur, aldraðir og fólk með undirliggjandi sjúkdóma taki tilmælin sérstaklega til sín og hvetja raunar þá sem eru sérstaklega viðkvæmir til að einangra sig í þrjá mánuði, frá og með næstu helgi. Tilmælin til ófrískra kvenna vekja ákveðnar spurningar, hingað til hefur ekki verið talað um að þær séu í meiri hættu en aðrir. 

Eina Evrópulandið sem ekki hefur takmarkað skólastarf

epa08301189 A near empty tube train in London, Britain, 17 March  2020. British Prime Minister Johnson has called upon the British public to avoid all social contact with others and to stop non-essential travel to mitigate the spread of the coronavirus Covid-19 pandemic, reports state.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Nær auð neðanjarðarlest í London.

Johnson sagði að íbúar Bretlands ættu að forðast öll ónauðsynleg ferðalög, vinna heiman frá sér, fara hvorki á barinn né í leikhús, einfaldlega halda samskiptum sínum við aðra í lágmarki. Sleppa á heimsóknum á öldrunarheimili nema þær séu bráðnauðsynlegar. Ef einhver á heimilinu fær þrálátan hósta eða hita þurfa allir á heimilinu að halda sig heima í tvær vikur. Þrátt fyrir að vera ekki með greint smit eiga heimilismenn að forðast það að fara út úr húsi, meira að segja sleppa búðarferðum. Skólum verður ekki lokað, ekki enn sem komið er en Patrick Vallance, helsti vísindaráðgjafi bresku ríkisstjórnarinnar sagði að til þess kæmi líklega á endanum. Öll Evrópuríki nema Bretland hafa nú takmarkað skólastarf ef marka má fréttaflutning Guardian.

epa08300687 Shoppers queue to enter the Costco wholesale supermarket in north London, Britain, 17 March 2020. Britain's Prime Minister Boris Johnson has urged UK citizens to avoid unnecessary social contacts, to work from home where possible, and to stay away from pubs and restaurants. Several European countries have closed borders, schools as well as public facilities, and have cancelled most major sports and entertainment events in order to prevent the spread of the SARS-CoV-2 coronavirus causing the Covid-19 disease.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Margir vilja birgja sig upp. Röðin inn í Costco-verslun í norðurhluta Lundúna fyrr í dag.

Ný líkön leiddu til viðsnúnings - hætt við 260.000 dauðsföllum

Bresk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir kæruleysi en nú hefur orðið viðsnúningur - hvers vegna? James Gallagher, sérfræðingur Breska ríkisútvarpsins, BBC, á sviði heilbrigðismála, segir að þessi skjóta stefnubreyting hafi átt sér stað eftir að vísindamenn við Imperial College og London School of Hygiene and Tropical Medicine kynntu ríkisstjórninni líkan sem byggir á þróuninni á Ítalíu. Líkanið sýndi að með því að reyna einungis að hægja á faraldrinum með þeim aðgerðum sem stjórnvöld höfðu þegar kynnt en ekki stöðva hann kallaði ríkið yfir sig hörmulegan faraldur, gjörgæsludeildir myndu ekki ráða við álagið. Útreikningarnir bentu til þess að án frekari aðgerða myndu 260 þúsund manns láta lífið á Bretlandseyjum ekki bara úr COVID-19 heldur einnig vegna þess að heilbrigðiskerfið gæti ekki sinnt öðrum sjúklingum sem þurfa sérhæfða þjónustu. 

Það er bara einn stór hængur á, segir Gallagher. Um leið og aðgerðum verður hætt gæti veiran náð sér á strik á ný. Í skýrslu líkanasmiðanna frá skólunum tveimur kom fram að það gæti þurft að halda aðgerðunum í streitu allt þar til bóluefni kæmi á markað - það gæti tekið meira en ár. 

Áhættusamari leið til að mynda mótefni

Allt tengist þetta tal um aðgerðir umræðu um hjarðónæmi sem farið hefur hátt bæði hér og í Bretlandi. 

Barn bólusett á Heilsugæslustöð.
 Mynd: Fréttir
Barn í mislingabólusetningu.

Á Íslandi er gott hjarðónæmi fyrir hinum ýmsu óværum; rauðum hundum, kíghósta, mænusótt og mislingum, svo dæmi séu nefnd. Ástæðan er sú að börn eru bólusett fyrir þessum sjúkdómum. Veira sem kemur inn í samfélagið og reynir að sýkja fólk rekst alls staðar á veggi, ónæmiskerfi flestra veit hvernig á að losa sig við hana og hún nær ekki bólfestu í samfélaginu.

 

Til að mynda hjarðónæmi gegn nýjum og óþekktum veirusjúkdómi sem ekki er til bóluefni við þarf að fara aðra og áhættusamari leið. Stór hluti fólks í samfélaginu þarf að fá veiruna, ónæmiskerfið þess þarf að vinna bug á henni og vonin er sú að það þekki hana aftur ef hún stingur sér niður að nýju, rétt eins og spænska veikin gerði haustið 1918. Þá er lok lok og læs og allt í stáli hjá nógu mörgum, lítil útbreiðsla og samfélagið í heild þannig verndað. Líka þeir sem ekki hafa fengið sjúkdóminn. 

Alls ekki markmið stjórnvalda að ná hjarðónæmi

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Þórólfur Guðnason

Í Silfrinu á sunnudag sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, raunhæfara að reyna að hægja á veirunni en að stöðva hana alveg, teygja á faraldrinum. Það sé ekki hægt að koma í veg fyrir að veiran dreifist um samfélagið, stjórnvöld vilji bara ekki að hún sýki viðkvæmasta fólkið eða setji heilbrigðiskerfið á hliðina. „Við erum að reyna að búa til ónæmi í samfélaginu á hægan og öruggan hátt þannig að allir verði verndaðir þegar upp er staðið.“ 

Varar við útreikningum

Þórólfur talaði um að 60% landsmanna þyrftu að smitast til að hjarðónæmi myndaðist. Það gera rúmlega 214 þúsund manneskjur. Dánartíðni hjá eldra fólki og fólki með undirliggjandi sjúkdóma virðist margfalt hærri en hjá yngra fólki og fólki við góða heilsu en það breytir því ekki að einhverjir í unga, hrausta hópnum kæmu til með að eiga erfitt með að berjast við veiruna. Ef gert er ráð fyrir að dánartíðnin í hópi þeirra sem fá veiruna sé lág, 0,2%, eins og hún er talin vera hjá fólki á fertugsaldri, samkvæmt kínverskum rannsóknum, þá myndi 60% smithlutfall þýða að á fimmta hundrað léti lífið hér. Ef gert er ráð fyrir dánartíðninni sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin miðar við 3,4% yrðu dauðsföllin á Íslandi yfir sjö þúsund.

Á blaðamannafundinum í gær sagði Þórólfur að með ummælum sínum um hjarðónæmi hafi hann alls ekki átt við að markmið stjórnvalda væri að stór hluti þjóðarinnar sýktist. Það væri misskilningur. Þórólfur varaði líka við varasömum útreikningum sem sýni að þúsundir gætu látist úr sjúkdómnum hér. Þeir væru úr lausu lofti gripnir. 

Hjarðónæmismisskilningur olli fjaðrafoki í Bretlandi

epa08290392 British lead science advisor Patrick Vallance speaks during a news conference inside 10 Downing Street in London, Britain, 12 March 2020. Johnson spoke about the status of the pandemic coronavirus outbreak in the UK.  EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Patrick Vallance á upplýsingafundi breskra stjórnvalda þann 12. mars.

Hjarðónæmismisskilningurinn var leiðréttur í hvelli hér á landi en í Bretlandi ollu ummæli svipuð þeim sem Þórólfur lét falla talsverðu fjaðrafoki. Patrick Vallance, vísindaráðgjafi bresku ríkisstjórnarinnar, sagði í samtali við Sky News að með því að loka öllu í marga mánuði mætti bæla faraldurinn niður, en að þá kæmi bara toppur seinna þegar lokunum yrði aflétt.

„Við viljum hægja á faraldrinum en við viljum ekki stöðva hann alveg,“ sagði Vallence. Það þyrfti nógu margt hraust fólk að veikjast og mynda ónæmi. Vallance sagðist halda að veiran sem veldur COVID-19 ætti eftir að stinga sér niður árlega, ekki ólíkt inflúensu. Hjarðónæmið væri því mikilvægt. Erfitt var fyrir leikmann að skilja orð hans öðruvísi en svo að það væri æskilegt að stór hluti þjóðarinnar, um 60%, sýktist til að skapa þetta hjarðónæmi. Ummælin vöktu hörð viðbrögð, hundruð vísindamanna undirrituðu yfirlýsingu í mótmælaskyni. Sögðu stefnu sem fæli í sér að byggja upp hjarðónæmi óábyrga og til þess fallna að bera heilbrigðiskerfið ofurliði.

Ekkert hjarðónæmi í Kína

Einn gagnrýnandanna, Jeremy Rossman, veirufræðingur við háskólann í Kent í Bretlandi, skrifaði grein í vefritið The Conversation. Þar áætlaði hann að til að ná hjarðónæmi þyrftu 47 milljónir Breta að sýkjast. Í versta falli myndu átta milljónir leggjast inn á sjúkrahús og ein milljón deyja.  Hann sagði að stjórnvöld eigi að horfa til Kína, sem virðist vera að ná tökum á útbreiðslu COVID-19, án þess að stefna að hjarðónæmi, þar hafi einungis 0,0006% landsmanna sýkst. 

epa08299610 A masked man works on an assembly line at a Dongfeng Honda plant in Wuhan, Hubei province, China, 16 March 2020 (issued 17 March 2020). The joint venture is one of the first manufacturers allowed to resume operation in Wuhan after the coronavirus and COVID-19 outbreak.  EPA-EFE/SHEPHERD ZHOU CHINA OUT
 Mynd: EPA-EFE - FEATURECHINA
Í Wuhan-borg hefur hluti fólks nú fengið að snúa aftur til vinnu.

Afleiðing - ekki markmið

Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur það eftir fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins að orð vísindaráðgjafans Patrick Vallance hafi verið misskilin. Það sé ekki hluti af áætlun stjórnvalda að ná hjarðónæmi heldur sé það eitthvað sem gerist í faraldri. Eins konar hliðarafurð eða afleiðing, ekki markmið. Markmið stjórnvalda sé, líkt og hér, að sem fæstir sýkist, að bjarga mannslífum, takmarka álag á heilbrigðiskerfið og standa vörð um viðkvæma hópa.

Hjarðónæmi eða faraldurstoppur seinna?

Stendur valið á milli þess að byggja upp hjarðónæmi eða fá topp seinna? Þetta er ekki alveg svo einfalt. Hjarðónæmi sem byggist upp samhliða faraldri verndar samfélagið. Þannig gæti verið gott að hluti fólks sem ekki er viðkvæmt fyrir fái veiruna, það gæti komið í veg fyrir topp þegar samkomubanni verður aflétt.

epa08180727 An undated handout photo made available by the Commonwealth Scientific and Industrial Research Organisation (CSIRO) shows a scientist working in the secure area at CSIRO's Australian Animal Health Laboratory (AAHL), a high-containment facility in Geelong, Victoria, Australia (issued 31 January 2020). Researchers are working to test vaccine for the coronavirus on humans. The CSIRO animal testing facility in Geelong received a lab-grown version of the disease on 31 January 2020, media reported. Australian scientists announced this week that they were the first to have successfully grown the virus in a lab outside of China.  EPA-EFE/CSIRO HANDOUT  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - CSIRO
Vísindamenn í Ástralíu vinna að þróun bóluefnis. Óvíst er hvenær bóluefni við veirunni verður tilbúið.

Vandinn er sá að það liggur ekki fyrir hvort fólk sem læknast af COVID-19 myndar mótefni gegn veirunni og ef svo er, hve lengi mótefnið endist - þannig gæti tilraun til þess að byggja upp hjarðónæmi verið til einskis og toppurinn komið hvort eð er þegar lífið fer aftur að ganga sinn vanagang. 

Spurningarnar eru margar. Er rétt að fara varlega núna, stöðva útbreiðslu eins og hægt er í því skyni að forðast ástand eins og skapaðist á Ítalíu og hætta á að fá topp seinna? Næsta vetur verður veiran kannski líklegri til að valda miklum skaða. Hver veit? Það getur þó líka verið að heilbrigðiskerfið verði þá betur í stakk búið til þess að takast á við COVID-19 topp, hafi fleiri bjargir og meiri þekkingu

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi