Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hjálpuðu barni í sjálfheldu á Esjunni

Mynd: Landsbjörg / Af Facebook
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu og björgunarsveitir komu í dag til bjargar tíu ára stúlku sem var í sjálfheldu í gili í Esjunni. Stúlkan var á göngu með fjölskyldu sinni sem er hér á ferðalagi. Frímann Andrésson, sem er í aðgerðarstjórn björgunarsveitanna, segir fjölskyldan hafi hætt sér of hátt.

Stúlkan varð viðskila við föður sinn og fjölskyldu og lenti í sjálfheldu, segir Frímann. Faðirinn taldi sig ekki geta komið dóttur sinni til bjargar sjálfur, miðað við aðstæður, og kallaði því eftir aðstoð. Frímann segir að stúlkan hafi verið skelfd. 

Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg - Aðsend mynd

Í kjölfarið hafi björgunarsveitir og slökkvilið verið kallaðar út. Um þrjátíu manns hafi komið á staðinn til aðstoðar. Þeir átta fyrstu á vettvang fóru upp á fjallið og hittu foreldra barnsins, segir hann. Eftir að björgunarfólki tókst að staðsetja stúlkuna var ákveðið að ganga á hrygg sem var fyrir ofan gilið. Best væri að athafna sig þaðan. 

Björgunarsveitarmaður fór niður af hryggnum með línu og fylgdi stúlkunni upp gilið í kjölfarið. Allri fjölskyldunni var svo fylgt niður fjallið. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu varð ekkert slys á fólki. Björgunaraðgerð hófust á hádegi og þeim lauk seinni part dags.  

Fréttin hefur verið uppfærð.

 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn