Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hjálmar: Veturinn hefur verið óvenjulegur

14.02.2020 - 03:34
Hjálmar Björgvinsson, deildarstjóri almannavarna hjá Ríkislögreglustjóra. - Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Hjálmar Björgvinsson, aðgerðarstjóri í samhæfingamiðstöð Ríkislögreglustjóra, beinir þeim tilmælum til fólks að æða ekki út í neina óvissu í óveðrinu sem fer yfir landið. Hingað til hefur álagið mest veirð á Vestmannaeyjum og Suðurlandi, en veðrið á eftir að fara yfir Reykjanes, Faxaflóa og Vesturland þegar líður á morguninn.

Hjálmar sagði í samtali við fréttastofu í nótt að best væri fyrir fólk að halda sin innandyra, hvort sem það er á vinnustað eða heima, á meðan veðrið gengur yfir. Á höfuðborgarsvæðinu skellur veðrið á um það leyti sem fólk er að leggja af stað til vinnu. Hjálmar sagði sömu tilmæli eiga við til þeirra, og víða hafi þegar verið gripið til ráðstafana. Til að mynda verða skólar lokaðir, sundlaugar opna ekki fyrr en klukkan þrjú og Strætó hefur aflýst ferðum fram eftir morgni. Umferð á höfuðborgarsvæðinu ætti því að vera minni en venjulega. Á móti kemur gæti orðið foktjón í borginni, og sagðist Hjálmar vona að fólk hafi bundið niður lausamuni við heimili sín. 

Aðspurður hvort það sé ekki óvenjulegt að takast á við veðurviðvörun um allt land, svaraði Hjálmar því til að þessi vetur hafi verið svolítið óvenjulegur. „Það sem er nýtt fyrir okkur núna er þessi rauða viðvörun sem er búið að lýsa yfir á Suður- og Vesturlandi, það er eitthvað sem við þekkjum ekki þó við höfum verið í miklu óveðri áður,“ sagði Hjálmar. Viðtalið við hann má heyra í spilaranum hér að ofan.