Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hitta fulltrúa aldraðra og öryrkja síðdegis

Mynd: Skjáskot / RÚV
Formenn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar  hafa haldið viðræðum sínum um myndun ríkisstjórnar áfram í morgun. Eftir hádegi stendur til að hitta fulltrúa Öryrkjabandalagsins og eldri borgara. 

Formenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna funduðu fram á kvöld í gærkvöld og héldu svo áfram í morgun viðræðum sínum um að mynda ríkisstjórn. Síðar í dag verður haldið áfram að hitta sérfræðinga líkt og gert hefur verið síðustu daga.

„Formenn flokkanna þriggja hitta fulltrúa Öryrkjabandalagsins og eldri borgara á eftir og hlusta á þeirra skilaboð. Þingmenn þessara þingflokka hittast reglulega og einhverjir hafa fengið kynningu á drögum að málefnasamningi. En enn sem komið er virðist ekkert babb komið í bátinn sem ekki er yfirstíganlegt,“ sagði Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fréttamaður í hádegisfréttum. „Þegar málefnasamningur er tilbúinn þá er hann borinn undir þingflokka og flokksstofnanir en þær þarf að kalla saman með eins til tveggja daga fyrirvara. Samþykki þeirra þarf að liggja fyrir áður en gengið er til samstarfs í ríkisstjórn. Og á einhverjum tímapunkti verður einn formaður, sennilega Katrín Jakobsdóttir, kallaður til Bessastaða. Allt gerist þetta á næstu dögum og því gæti ný ríkisstjórn tekið við um helgina eða í byrjun næstu viku.“

Jóhanna Vigdís sagði að ekkert hefði verið gefið upp um ráðherramál: „En búist er við að Sjálfstæðisflokkur fái fimm ráðherra, Vinstri græn þrjá og þar af stól forsætisráðherra og síðan forseta Alþingis, og Framsókn þrjá. Og þá tekur við vandasamt verk formanna flokkanna að velja ráðherra í nýja ríkisstjórn, en sennilega hafa þeir gert upp hug sinn nú þegar.“